145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og er sammála henni í meginatriðum. Hér erum við auðvitað að tala um mál sem, eins og er því miður allt of algengt hér á Alþingi, kom þannig búið frá ráðuneytinu að töluvert mikla vinnu þurfi til þess að koma því í viðunandi horf en við bárum gæfu til þess í umhverfis- og samgöngunefnd að stilla okkur saman um að gera það vel. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það líka úr velferðarnefnd að það hefur mjög oft gerst að við höfum með aðkomu ábyrgrar stjórnarandstöðu lagað mál sem eru misvel búin af hendi meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að biðja hv. þingmann að staldra við tvö atriði sem hún nefndi í sinni ræðu. Í fyrsta lagi lýsir hún eftir stefnu á sviði ferðamála. Hún segir að þetta mál sé gott og blessað, það sé gott að vera komin með skýrari lagaramma um nákvæmlega þetta en við séum kjarklaus í ákveðnum efnum og vísar þá kannski sérstaklega til þeirra atriða sem lúta að gjaldtöku af ferðamönnum. Það er það sem mig langar að biðja hv. þingmann að staldra við, þ.e. í fyrsta lagi stefnumörkun á sviði ferðamála. Nú segir ferðamálaráðherrann ítrekað að Vegvísir í ferðaþjónustu og Stjórnstöð ferðamála sé í raun og veru það sem þurfti að gera og sé búið að gera og þar með sé þetta allt saman komið í góðan farveg. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað hún telji að þurfi að gera betur í þessu og hvernig við eigum að nálgast þetta. Hins vegar vil ég spyrja hana um verkefnið um aukna gjaldtöku af ferðamönnum eða af atvinnugreininni sem slíkri. Þá langar mig að biðja hana um að staldra sérstaklega við þá staðreynd að það er höfuðborgarsvæðið sem er algengasti viðkomustaður ferðamanna.