145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og er ánægð með að hún ætlar að staldra við sveitarfélögin í síðara svari sínu því að það er nákvæmlega það sem er vaxandi áhyggjuefni út um allt land, aukið álag á innviði sveitarfélaganna, fráveitukerfi, vegakerfi og þetta daglega stand sem sveitarfélögin þurfa að standa straum af. Það er kannski ekki síst áhyggjuefni akkúrat hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem er viðkvæmasta og fínlegasta byggðin, í Kvosinni og í Þingholtunum, og á þessu þéttriðna svæði þar sem götur eru þröngar o.s.frv. Þar er orðið mjög mikið álag af rútum og ferðaþjónustubifreiðum o.s.frv. sem slítur þessum innviðum. Þetta eru innviðir sem eru á herðum sveitarfélagsins sem slíks að standa straum af og passa upp á. Á meðan ríkissjóður er að borga niður skuldir og hreykir sér af því að allt gangi vel þá eru sveitarfélögin að glíma við, og þetta er bara dæmi um slíkt, sífellt meira álag af breyttri samsetningu atvinnulífsins o.s.frv. án þess að með nokkru móti sé komið til móts við það í breyttri sýn á skiptingu tekna ríkis og sveitarfélaga. Þetta er þáttur sem þarf augljóslega að skoða.

Hv. þingmaður segir að komugjöld séu hennar sýn, það sé þátturinn sem sé einfaldastur, en þá vil ég spyrja hana um það hvernig hún sér fyrir sér samspil komugjalda, sem er þá væntanlega eitt gjald inn í landið, og þeirrar staðreyndar að einstök svæði búa við mismunandi mikið álag og hafa mjög mismunandi þol og hvort við getum með einhverju móti látið þetta spila saman með ábyrgum hætti.