145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu um stórt og mikilvægt mál. Vatnajökulsþjóðgarður var náttúrlega á sínum tíma settur á stofn, kannski sem nokkurs konar sáttaboð fyrir þá framgöngu sem menn höfðu í virkjunarmálum á hálendinu þegar ráðist var í Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma, og mikilvægt er að þjóðgarðurinn sem þar hefur tekist að setja á stofn fái að þróast, dafna, eflast og stækka. Til þess er mikilvægt að þessi mál séu litin heildstæðum augum og þróuð með landið allt í huga og framtíðarstefnu.

Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Róbert Marshall frá því við skiptumst á skoðunum í stuttum andsvörum áðan þegar ég innti hann eftir því hvort hann sæi einhver svæði sem rétt væri að horfa til þess að kæmust í eign almennings, gætu orðið hluti af þessum þjóðgarði nú eða í framtíðinni. Hann nefndi Jökulsárlón og Hjörleifshöfða og ég tek eindregið undir með þingmanninum og held að það séu miklu fleiri svæði þar sem við þurfum að marka slíka stefnu, til að mynda á Geysissvæðinu sem hefur auðvitað verið satt að segja tóm vandræði með eignarhald á allt of lengi fyrir svo mikilvægan stað í sögu landsins og í ört vaxandi ferðamennsku.

Við þurfum og eigum að skapa einkafyrirtækjum, einkaaðilum og atvinnulífinu tækifæri til að selja og veita þjónustu inni á friðuðum svæðum. En fyrirtæki koma og fara, og landið sjálft sem þjóðgarðarnir og slík starfsemi byggja á á að vera í eigu okkar allra sameiginlega rétt eins og fiskurinn í sjónum, rétt eins og olía ef hún finnst í hafinu og rétt eins og aðrar auðlindir svo sem jarðhitinn í jörðinni og vatnsaflið í fossunum okkar. Um þetta þurfum við að marka miklu heildstæðari stefnu. Hvaða land skiptir máli til lengri tíma að sé í eigu almennings og hvað á og má vera í einkaeign? Gæti kannski verið betra að það væri í einkaeign vegna þess að einkaaðili ræki það betur. En þar þurfum líka að ræða þetta nokkuð sérstaka fyrirkomulag að fjöll geti verið í einkaeigu, sem ég held að sé bara í meginatriðum vond hugmynd vegna þess að röksemdin fyrir einkaeignarrétti á landi er auðvitað fyrst og fremst sú að með því að einstaklingur eigi landið þá muni hann sinna ræktun þess, viðhaldi og varðveislu betur en hið opinbera mundi gera. Þess vegna er það auðvitað fullkomlega eðlilegt að ræktarland sé í einkaeigu. En það að fjöll og firnindi séu það er satt að segja mjög sérstök hugmynd, því að fjöll og firnindi eru auðvitað fyrst og síðast almenningseign. Við lítum svo á að við höfum þau til afnota til útivistar o.s.frv. og að þau séu í raun og veru aldrei einkaeign hvað svo sem það kann að heita á einhverjum pappírum.

En við þurfum ekki bara heildstæða stefnu um hvaða land þurfi að vera í almenningseigu til þess að hér megi þróa áfram friðlýst svæði og þjóðgarða þannig að vel sé. Við þurfum líka heildstæða stefnu um stjórnkerfið yfir þjóðgörðunum, eins og hv. þm. Róbert Marshall fór svo ágætlega yfir. Þetta þingmál lýtur einmitt að stjórnkerfinu og það er löngu tímabært að við höfum friðlýst svæði og þau svæði sem eru þjóðgarðar í einni stofnun undir einni stjórn þar sem fer fram stefnumörkun sem horfir á heildarmyndina, lítur á styrkleika og veikleika hvers svæðis og þróar þetta í samhengi í þágu hagsmuna landsins alls en ekki á hverjum skika fyrir sig. Um leið er mikilvægt að tryggja aðkomu heimamanna og áhrif þeirra, til að mynda með svæðisráðum og þá á fleiri stöðum en í Vatnajökulsþjóðgarði. Hér þarf líka að taka undir að mínu viti Þingvelli sem náttúruperlu og þjóðgarð fyrst og fremst, þó að það sé auðvitað mikilvægt og eðlilegt að Alþingi hafi áfram sérstaka aðkomu að þinghelginni sjálfri og þeim hluta Þingvalla sem beinlínis tengjast þinghaldi til forna og þeirri sögu og sterku tengslum sem við Íslendingar viljum halda í og alþingismenn trúi ég.

En við þurfum ekki bara að hafa þjóðgarðana okkar í einni stofnun ásamt með friðlýstum svæðum, heldur þurfum við líka að hugsa það í miklu stærra samhengi hvað við ætlum að hafa þjóðgarða og hvað ekki. Hugmyndin um Vatnajökulsþjóðgarð var gott skref út af fyrir sig á þeim tíma sem í það var ráðist, kannski svona hæfilegt verkefni til að hefjast handa við. Það liggur hins vegar alveg fyrir, og er búið að gera um talsvert langt skeið held ég, öllum sem rýna þessi mál, að það er fyrir allnokkru síðan orðið tímabært að við horfum á miðhálendið í heild sinni, ekki í einstökum bútum, ekki sem eitt og eitt svæði, heldur á þessa gríðarlegu auðlegð sem við Íslendingar eigum í 40 þús. ferkílómetrum af ósnortnum víðernum, sem er býsna fátítt á norðurhveli jarðar a.m.k. í Evrópu og orðið æ eftirsóttara að sækja í og æ mikilvægara að varðveita. Vegna þess að það er svo auðvelt að spilla ósnortnum víðernum með því að gera málamiðlanir um eitt mastur hér og einn veg þar og eina byggingu hér þar til upplifunin af svæðinu er allt í einu ekki lengur sú að það sé ósnortið. Ég tala nú ekki um ef fyrirætlanir um lagningu raflína þvert yfir hálendið næðu fram að ganga.

Nú eru orðin ein tíu ár, hygg ég, síðan ég ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og fleiri ágætum þingmönnum fluttum þingmál um að við ættum að hefjast handa við að skrá miðhálendi Íslands á heimsminjaskrá UNESCO. Í því fælist yfirlýsing af okkar hálfu um að við vildum verja og vernda þessa sérstöku perlu okkar, miðhálendið, og vanda mjög til verka í því, einfaldlega vegna þess að það að fara í gegnum vinnuna við að sækja um að komast á heimsminjaskrána með þetta stóra svæði kallar á markvissa stefnumörkun, það kallar á að menn fari yfir þær hugmyndir sem fyrir liggja, þrói áfram þær sem góðar eru en láti hinar liggja og vinni skipulega og heildstætt með svæðið allt til að nýta það sem best en þó fyrst og fremst vernda það sem best fyrir komandi kynslóðir. Sú tillaga var flutt á yfirstandandi þingi öðru sinni og hún er í raun og veru náskyld þeirri stefnumörkun sem landsfundur Samfylkingarinnar fór í fyrir nokkru síðan um að rétt væri að friðlýsa miðhálendið í heild sinni. Það er ekki bara stefna Samfylkingarinnar, það er líka stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hygg að allnokkrir aðrir þingflokkar á hinu háa Alþingi styðji það markmið og í sjálfu sér þess vegna miður að þingið hafi ekki fyrir löngu afgreitt tillögur þess efnis og samþykkt ályktun um að það sé næsta skref. Slík stefnumörkun hefði auðvitað getað haft áhrif á ýmsa áætlunargerð og ýmislegt það sem opinberir aðilar hafa verið að vinna að að undanförnu og manni finnst a.m.k. fljótt á litið að stangist á við þennan ríka pólitíska vilja um að verja og vernda miðhálendið. Ég nefni í því sambandi Skrokköldu og spyr hvort það hefðu nokkurn tímann komið fram tillögur um að ráðast í virkjun á Skrokköldu ef við hefðum tekið og verið búin að taka af skarið um að friðlýsa ætti miðhálendið. Ég nefni þá fjármuni sem Landsnet hefur verið að verja í vinnu við einhvers konar undirbúning að línulögn yfir miðhálendið. Ég nefni virkjunarhugmyndir sem opinber orkufyrirtæki hafa unnið að í Hvítá ofan við Gullfoss og kæmu vart til álita ef fyrir lægi að þingið hefði markað, og þá þvert á flokka, pólitíska stefnu um það að miðhálendi Íslands skuli vera friðlýst.

Þess vegna vil ég nota tækifærið og hvetja stuðningsmenn þess að miðhálendið verði friðlýst og hugsanlega í heild sinni gert að þjóðgarði til að reyna að freista þess áður en þessu þingi lýkur að fá ályktun þessa efnis samþykkta. Við höfum stuðningsmenn þessa málefnis í öllum þingflokkum á Alþingi, fólk sem vill beita sér fyrir friðun og verndun miðhálendisins í öllum þingflokkum. Hægra megin og vinstra megin finnum við þingmenn í öllum þingflokkum sem deila þeirri framtíðarsýn, enda eru hagsmunirnir í því býsna augljósir, hagsmunirnir í því að vernda það sem við fengum í vöggugjöf, þessi víðerni og þá stórkostlegu frelsistilfinningu sem því fylgir að búa í nánd við þau og geta sótt þangað, ferðast þar um og komist í þá nánu og dýrmætu snertingu við náttúruna sem við þar gerum. Að verja það og varðveita til framtíðar fyrir börnin okkar og barnabörnin er auðvitað fyrsta og fremsta skyldan, en líka það að tryggja að hér sé athvarf, staður þar sem annað fólk sem ekki býr að því að eiga slíka perlu í grennd við sig og býr í löndum sem eru meira og minna manngerð í ys og þys borgarlífs, að geta sótt hingað og leitað út í þessa einstöku náttúrufegurð sem er svo brýnt að verði ekki með skammsýni spillt með línulögnum, uppbyggðum vegum eða öðrum mannvirkjum sem nóg er af alls staðar, virðulegur forseti, meðan miðhálendi Íslands finnst hvergi nema hér.