145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég get tekið heils hugar undir með honum að allflestu leyti. Það hefur oft verið rætt við eldhúsborðið heima hjá mér einmitt það sem hann kom inn á, þ.e. að eiga land frá fjalli til fjöru og jafnvel að hægt sé að slá á puttana á þér þegar þú ætlar að fara í berjamó vegna þess að einhver á landið. Það er mjög sérstakt að það skuli yfir höfuð vera þannig að einhverjir sem settu sig niður á einhverjum bletti fyrir öld eða öldum síðan, sökum þess að þar var hægt að rækta jörðina og menn voru að reyna að koma undir sig fótunum, að það erfist, það fer í eyði og er ekki búið á því svo áratugum og árhundruðum skiptir en samt sem áður á einhver einstaklingur eða einstaklingar landið. Mér hefur alltaf þótt þetta mjög sérstakt og hef oft hugsað um hvort hægt sé að setja einhver mörk á það, einmitt að maður geti ekki átt t.d. 200 metra frá fjalli og niður eins og maður segir, það sé a.m.k. í eign okkar allra eða þjóðarinnar, það geti ekki verið í eigu tiltekinna aðila. Sama má segja um það sem hv. þingmaður nefndi um uppkaup á einhverjum tilteknum perlum innan samfélagsins sem við teljum að við þyrftum að eiga.

Mig langar til að spyrja þingmanninn, hann kom inn á ansi margt og m.a. það að hafa í einni stofnun þjóðgarðana alla saman. Nú hefur það auðvitað verið aðeins gagnrýnt, þó að stjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að breyta ekki fyrirkomulaginu sem er núna. Af hverju telur þingmaðurinn að það sé heppilegra en að hafa stjórnina úti í svæðunum sjálfum og efla kannski þá starfsemi?