145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[17:09]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að koma hér upp og tjá mig um þetta mál þó að hv. þm. Róbert Marshall, sem er maður Bjartrar framtíðar í umhverfis- og samgöngunefnd, hafi skýrt okkar hlut mjög vel og talað um þetta og þá vinnu sem fór fram í umhverfis- og samgöngunefnd sem er einstaklega vel mönnuð nefnd og hefur unnið mörg góð verkin á þessu kjörtímabili, og fagna nú margir í salnum, en það er bara mín meining, það er svoleiðis og það hefur sýnt sig. Ég kem hérna helst út af því að ég hef mikinn áhuga á náttúru Íslands og hvernig við förum og göngum um hana.

Nú voru umhverfismál til skamms tíma ekkert endilega mitt aðaláhugamál eða hvernig við göngum um. Ég velti þessum hlutum alls ekki mikið fyrir mér og var ekkert að velta því fyrir mér hvort þessi áin eða þessi fossinn væri virkjaður eða hvernig við keyrðum um á hálendinu og þar fram eftir götunum. En eftir því sem maður eldist og fylgist meira með þá fær maður meiri áhuga og áttar sig á því hversu gríðarlega mikilvæg auðlind náttúran okkar er og hversu ofboðslega mikilvægt það er að hugsa vel um hana. Náttúran á Íslandi er helsta aðdráttarafl ferðamanna, það er alveg ljóst. Við verðum því að ganga vel um hana eins og allar aðrar auðlindir okkar. Við höfum sett okkur reglur í sambandi við sjávarútvegsauðlindina og við eigum að gera það líka með náttúruauðlindina. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi sem mér vitrara fólk í samgöngunefnd segir að sé til bóta og framfara fyrir íslenska náttúru.

Ég hélt ræðu 17. júní heima í Grindavík. Þar talaði ég aðeins um náttúruna og kannski ekki síst um ættjarðarást því að við tölum allt of lítið um hana. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði áðan þá tölum við allt of lítið um þessi mál og hversu gríðarlega mikilvæg þau eru fyrir okkur og fyrir land og þjóð. Við þurfum að tala um umhverfismál af alvöru og ábyrgð og hvað við getum gert til þess að vernda náttúruna og ekki síst er það mikilvægt fyrir börnin okkar. Þá ætla ég að fá að vitna í ræðuna mína sem ég flutti 17. júní:

„Þótt ég vilji ekki á neinn halla þá tel ég mikilvægustu þegna hverrar þjóðar vera börn hennar því það eru þau sem landið munu erfa eftir að við sem eldri erum hverfum af sviðinu. Því er það svo mikilvægt að við sem fullorðin erum séum þeim góð fyrirmynd, fyrirmynd sem kennir þeim og leiðbeinir um öll þau gildi sem við viljum lifa og starfa eftir, gildi eins og umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu. Við eigum að auka þeim víðsýni, efla færni þeirra í íslensku máli, efla skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum og högum fólks fyrr og nú. Kenna þeim hverjar eru skyldur þeirra sem einstaklinga við samfélagið, umhverfið og umheiminn.“

Þetta er eins og glöggir munu sjá tekið beint úr markmiðsgreinum grunnskólalaga en skólarnir okkar eru kannski lykilstofnanir í því að efla og fræða börn, efla skilning barna á umhverfinu og náttúrunni og samfélaginu og efla vitund þeirra gagnvart því. Ég segi það að ef við setjum þetta á oddinn í uppeldi barna okkar byggjum við upp samfélag án aðgreiningar og samfélag sem styður alla til sjálfstæðs lífs, samfélag sem umvefur þegna sína og náttúru umhyggju og kærleik. Það er eitt af þeim lykilatriðum sem ég hef alltaf haldið fram allt frá því ég varð þingmaður að við eigum að gera.

Ekki síst eigum við að kenna börnunum okkar um það gildi sem náttúra landsins okkar hefur fyrir okkur sem nú lifum og fyrir komandi kynslóðir. Efla með okkur öllum ábyrgðarkennd sem er hornsteinn mannlegs siðferðis, því að sá sem ekki finnur til ábyrgðar getur illa byggt upp raunverulegt samband við aðra. Slíkri manneskju er erfitt að treysta og traust er frumskilyrði mannlegra samskipta og heldur samfélagi manna saman. Það vita allir að þegar traustið þverr þá leiðir það til árekstra og sundrungar, sem því miður gerist allt of oft.

Því miður er ósnortið víðerni á hverfanda hveli og þegar við höggvum stöðugt í það erum við í raun að vinna gegn okkur sjálfum og öðrum. Því ætti eitt af meginverkefnum okkar að vera að efla sambandið á milli ábyrgðarkenndar og náttúruverndar, milli ábyrgðarkenndar og barna.

Við Íslendingar eigum að taka að okkur það verðuga hlutverk að vera málsvarar náttúrunnar, standa vörð um hana, bera út boðskapinn um gildi hennar óspilltrar. Þjóð sem ástundar slíkt getur verið stolt þjóð. Við Íslendingar höfum alist upp, lifað og hrærst í nánum tengslum við landið okkar fjarri öllum stórborgum heimsins og það hefur gert að verkum að ást okkar á landinu er innbyggð, hún er ósjálfráð og ómeðvituð. Það er bara staðreynd með okkur Íslendinga. Ættjarðarást er stórt og fallegt orð. Það er eiginlega ekkert hægt að halda ræðu um náttúru án þess að tala um ættjarðarást og þjóðernisstolt, því hvort tveggja virðist vera ríkt í manneðlinu og hvort tveggja er jákvætt ef vel er með farið, af sjálfstrausti en hógværð, af öryggi en án nokkurs hroka.

Í sögu okkar Íslendinga, sem er í rauninni ansi stutt miðað við sögu margra annarra þjóða, hafa mjög margir farið vel og fallega með ættjarðarástina og þjóðernisstoltið, af heitri tilfinningu sem þó er fullkomlega laus við allt yfirlæti, dramb eða rembing. Það er því af mörgu góðu að taka sem getur verið okkur fyrirmynd og hvatning og leiðbeining. Einn þeirra er Jónas Hallgrímsson sem allir þekkja. Þessi næmi maður bjó yfir svo miklum gjörvileik og hæfileikum en naut allt of lítillar hylli og gæfu, eða hylli naut hann en ekki gæfu. Hann bjó eins og allir vita stærstan hluta ævi sinnar í Kaupmannahöfn en hugur hans var ávallt heima. Ljóðin hans eru svo full af einlægri ást á ættjörðinni, náttúrunni, grösunum og blómum og fuglum og fiskum. Hann var sannur náttúruunnandi og hann elskaði Ísland þrátt fyrir að búa annars staðar og hafa eytt ævi sinni meira og minna þar.

Mig langar að fara, með leyfi forseta, með ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, sem kannski lýsir þessu og bið ykkur að hlusta á tilfinninguna og tóninn í því:

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,

á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi Ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Og hér er annað:

Snemma lóan litla í

lofti bláu „dírrindí“

undir sólu syngur:

„Lofið gæsku gjafarans —

grænar eru sveitir lands,

fagur himinhringur.“

Svo að lokum þetta:

Fífilbrekka! gróin grund!

grösug hlíð með berjalautum!

flóatetur! fífusund!

fífilbrekka! smáragrund!

yður hjá ég alla stund

uni best í sæld og þrautum;

fífilbrekka! gróin grund!

grösug hlíð með berjalautum!

Er þetta ekki hrein og sönn ættjarðarást? Ást á landinu, á náttúrunni og lífinu, alveg tilgerðarlaus og laus við alla þörf til að upphefja sig. Við megum aldrei gleyma því að sönn ættjarðarást á ekkert skylt við rembing og þjóðernishroka. Það er ekki ættjarðarást að finna til þarfar til að upphefja sjálfan sig og landið sitt með því að gera lítið úr öðrum, öðru fólki, öðrum löndum eða annarri menningu. Það er ekki dyggð heldur löstur og lítilmennska. Það gerði Jónas Hallgrímsson aldrei.

Ég ákvað að koma hér upp og fara með þetta vegna þess að ég tel að við eigum að vernda náttúruna okkar meira og betur en við gerum. Þetta frumvarp er kannski liður í því að Vatnajökulsþjóðgarður og næsta nágrenni verði verndað og haldið ósnortnu, óspilltu fyrir komandi kynslóðir og eins fyrir þá sem heimsækja okkur til þess að sjá þetta stórkostlega land sem við búum í. Því styð ég málið heils hugar og þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir hennar þátt í því að gera það jafn gott og það er.