145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[17:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Maður er nánast hálfandaktugur að koma í ræðustól eftir að síðasti ræðumaður, hv. þm. Páll Valur Björnsson, er búinn að fara með ættjarðarljóð af miklum hug og kemur manni í dálítið góða stemningu til að ræða um nefndarálit vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Áður en ég fer að ræða það mál langar mig að segja að mér fannst mjög mikilvægt hvernig hv. þingmaður fór annars vegar með ljóð og talaði um ættjarðarást og tók hins vegar fram að það snýst ekki á nokkurn hátt um það að vera meiri eða betri en einhver annar, heldur einmitt að vera stoltur af sjálfum sér og því sem maður er án þess að upphefja sig á kostnað annarra. Ég held að þetta sé alveg rosalega mikilvægt að við höfum alltaf í huga og sérstaklega þegar við erum að tala um landið okkar sem við erum svo stolt af, því að við getum svo sannarlega verið stolt af því án þess að telja okkur meiri eða betri á nokkurn hátt en einhvern annan. Það held ég að sé mikilvægt að gera, alltaf.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér kom einnig inn á það í ræðu sinni að hann hefði framan af kannski ekki haft mikinn áhuga á umhverfismálum en að sá áhugi hafi verið að vakna hjá honum. Ég man ekki hvort hv. þingmaður sagði á gamals aldri, nei, hann sagði það líklega ekki, heilinn á mér hugsaði það. En ég held hins vegar að hv. þm. Páll Valur Björnsson sé ekki einn um að áhuginn á umhverfismálum sé að vakna.

Það hefur orðið heilmikil vakning meðal þjóðarinnar og aukin meðvitund um að það eru alveg gríðarleg verðmæti sem við erum með í höndunum þegar kemur að landinu okkar og við áttum okkur sífellt betur og betur á því að það er ekki sama hvernig við förum með þau verðmæti. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá hvernig umræða um allt sem lýtur að náttúruvernd hefur breyst og ég vil leyfa mér að segja að henni hafi fleygt fram. Umræðan hefur batnað, orðið vandaðri, dýpri og betri.

Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kannski lítill angi af því. Málið er að miklu leyti tæknilegs eðlis þar sem verið er að leggja til breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem snúa að ýmsu sem við getum sagt að komi að rekstri þjóðgarðsins. En það hefur komið svo berlega í ljós í umræðunni í dag að þetta er angi af svo miklu stærra máli sem snýr að því hvernig við ætlum að vernda og viðhalda en um leið nýta okkur og komandi kynslóðum til góðs þá stórkostlegu náttúru sem við eigum.

Sumir hafa tengt þetta inn á umræðu um miðhálendisþjóðgarð. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir flutti frumvarp þess efnis að miðhálendið verði gert að þjóðgarði. Við höfum tekið eftir því í umræðu, innan veggja þessa húss, á Alþingi, að því hefur vaxið ásmegin hjá þingmönnum allra flokka að gera miðhálendið að þjóðgarði. En sú umræða hefur ekki síður blómstrað úti í samfélaginu. Ég held og trúi því að við séum á þeirri leið að við munum í náinni framtíð gera miðhálendið að þjóðgarði. Ég vona satt að segja að það verði sem allra fyrst og að við náum að tengja saman sem stærst svæði sem þá verði þjóðgarðar.

Hæstv. forseti. Eitt af því sem líka hefur verið rætt talsvert í umræðu um Vatnajökulsþjóðgarð og er nátengt landfræðilega þessu máli er staða Jökulsárlóns og mikilvægi þess að sú náttúruperla sé í eigu þjóðarinnar. Ég held að það sé næsta mál sem þurfi að taka og í rauninni bæta við þegar kemur að Vatnajökulsþjóðgarði.

Ég átti fyrr á þessu ári, í vor líklega frekar en í vetur, orðastað við hæstv. umhverfisráðherra vegna sölu á jörðinni Felli í Suðursveit og mögulegum forkaupsrétti ríkisins á þeirri jörð. Það voru að mínu mati ansi áhugaverðar umræður sem spunnust af fyrirspurn minni varðandi mögulegan forkaupsrétt ríkisins eða hugsanlegt eignarnám á þeirri jörð þar sem hæstv. umhverfisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Mér finnst það mjög áhugaverð framtíðarsýn að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.“

Ég held að það eigi að taka hæstv. ráðherra á orðinu og gera Jökulsárlón að hluta af þjóðgarðinum og þá mögulega að ríkið kaupi jörðina, þ.e. þann hluta af jörðinni sem ekki tilheyrir ríkinu nú þegar og á að vera í söluferli. Ég held að þar með yrði þjóðgarðurinn meiri og stærri og kæmi enn meiri heildarmynd á hann.

Hæstv. ráðherra nefndi einnig hvort ekki væri rétt að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð og setja á heimsminjaskrá UNESCO og að hluti af því sé þá að skoða hvort hugsanlega þurfi að stækka þjóðgarðinn og tengja hann til sjávar. Auðvitað skiptir svona ytri umgjörð máli. Til þess að þjóðgarður geti virkilega staðið undir nafni hljótum við alltaf að horfa til þess hvernig við getum gert veg hans enn meiri og betri.

Mig langaði að koma með þessa punkta inn í umræðuna því að líkt og ég sagði áðan eru þessi mál á fleygiferð, þ.e. allt sem lýtur að náttúru landsins og umhverfisvernd. Ég held að alveg gríðarlega mikilvægt sé að við sem nú erum að véla með málefni þjóðarinnar séum mjög meðvituð um að við erum með gæði sem eiga eftir að skipta mjög miklu máli fyrir komandi kynslóðir. Þess vegna verðum við að vanda til verka og hugsa til framtíðar. Hv. þm. reynir hér að fipa mig með því að glotta og hrista höfuðið, ég neita að láta fipast. Auðvitað verðum við að horfa til framtíðar og sjá til þess að komandi kynslóðir geti einnig notið landsins okkar. Hv. þingmaður hlær kvikindislega.

Þess vegna tel ég að það frumvarp sem er til umræðu, sem eins og ég sagði áðan snýr að ýmsum tæknilegum atriðum sem varða Vatnajökulsþjóðgarð og fjallar um afmarkaða þætti, sé mikilvægur áfangi. Mér finnst mjög jákvætt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafi náð saman um að skila sameiginlegum breytingartillögum því að þetta er mál sem er þess efnis að það ætti ekki að vera flokkspólitískt og snertir sameiginlega framtíðarhagsmuni okkar allra. Ég tek því undir það sem aðrir hafa sagt að ég vona að þetta frumvarp verði samþykkt, en einnig að við látum ekki staðar numið þar heldur horfum til framtíðar og hugum að því hvernig við getum gert veg þjóðgarða á Íslandi enn meiri og betri í framtíðinni.