145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

þingsköp Alþingis.

856. mál
[17:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, um samkomudag reglulegs Alþingis 2016.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem er svohljóðandi:

Þrátt fyrir 4. mgr. 1. gr. skal 145. löggjafarþingi ljúka 29. október 2016.

Reglulegt Alþingi 2016, 146. löggjafarþing, skal koma saman þegar forseti Íslands hefur stefnt saman Alþingi, samanber 22. og 24. gr. stjórnarskrárinnar, og standa fram til reglulegs samkomudags Alþingis 2017.

Í greinargerð er fjallað um að þetta feli í sér að yfirstandandi löggjafarþing, 145. löggjafarþing, verði framlengt til 29. október, en þann dag er áformað að alþingiskosningar verði. Að óbreyttu ætti nýtt þing, 146. löggjafarþing, að hefjast þriðjudaginn 13. september en með þessu frumvarpi er lagt til að því verði frestað þar til eftir kosningar.

Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrár eru ákvæði um samkomudag reglulegs Alþingis en þar segir að hann skuli vera 1. október ár hvert. Þeirri tímasetningu má samkvæmt ákvæði 2. mgr. sömu greinar breyta með lögum. Það var gert með lögum nr. 84/2011, um breytingu á þingsköpum, og samkomudagurinn þá ákveðinn annar þriðjudagur í september. Aðstæður nú eru óvenjulegar þar sem alþingiskosningar eru fyrirhugaðar að hausti og þykir því hentugra fyrir störf Alþingis og afgreiðslu þingmála að núverandi löggjafarþingi verði fram haldið og síðan nýtt löggjafarþing sett að afloknum kosningum.

Þetta fyrirkomulag hefur verið nýtt áður og samkomudeginum verið breytt til bráðabirgða. Var það síðast gert árið 2013, samanber lög nr. 88/2013.

Eins og áður segir gerir frumvarpið ráð fyrir því að yfirstandandi löggjafarþing verði framlengt til 29. október 2016. Þar sem fyrirhugað er að alþingiskosningar muni fara fram áður en kjörtímabil alþingismanna rennur út þarf að rjúfa þing á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar. Tilkynning um slíkt, þ.e. þingrof, felur í sér hina formlegu ákvörðun um kjördag en það er ekki gert með þessu frumvarpi. Það verður gert síðar og samkvæmt 24. gr. skulu alþingiskosningar fara fram innan 45 daga frá því að þingrof er tilkynnt. Samkvæmt þessu er fyrst hægt að tilkynna um þingrof 15. september en má einnig verða síðar.

Þingið getur sem sagt engu að síður starfað áfram þótt þingrof hafi verið tilkynnt enda halda alþingismenn umboði sínu til kjördags, samanber 24. gr. stjórnarskrár.

Í frumvarpinu er loks áréttað að reglulegt Alþingi 2016, sem sett verður að afloknum kosningum, skuli standa fram til reglulegs samkomudags 2017, þ.e. annars þriðjudags septembermánaðar það ár.

Í 2. gr. er síðan fjallað um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Ég hef lokið við að segja frá þessu máli, herra forseti.