145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka til máls um niðurstöðu allsherjar- og menntamálanefndar varðandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Eins og fram kemur undirritaði ég hana með fyrirvara. Fyrirvari minn snýr að því að Jafnréttisstofa skilar mjög ítarlegri umsögn upp á 11 síður þar sem farið er lið fyrir lið ofan í þingsályktunartillöguna og komið með margar afskaplega góðar ábendingar sem ég hefði viljað sjá að meira tillit væri tekið til. En eins og hv. framsögumaður sagði var einungis ein efnisleg breyting gerð sem snýr að jafnrétti í skólastarfi.

Hér fjöllum við um áætlun sem hefði átt að koma út 2014, en þá rann síðasta framkvæmdaáætlun út. Það er miður að verið sé að vinna þetta fyrst núna. En alla vega leggjum við þetta fram hér árið 2016 á lokametrum þessarar ríkisstjórnar.

Ég ætla aðeins að fara í gegnum umsögn Jafnréttisstofu af því að hún varðar jú fyrirvarann sem ég geri við þingsályktunartillöguna. Jafnréttisstofa bendir á að það eru margir staðir í áætluninni þar sem hún telur að vanti markmið eða að ekki sé almennilega ljóst til hvaða aðgerða eigi að grípa til þess að ná settum markmiðum. Hún telur jafnframt að ekki sé heldur gerð nægjanlega skýr grein fyrir árangursmati á hinum ýmsu þáttum í framkvæmdaáætluninni. Við ræddum einmitt hvernig við metum eitt og annað sem þarna er undir. Það er mikilvægt þegar setja á fram framkvæmdaáætlun þar sem fólki eru falin einhver tiltekin verkefni að fram komi hvernig eigi að meta það.

Jafnréttisstofa minnir á 11. gr. jafnréttislaga þar sem kveðið er á um að þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun sé lögð fram og að fá eigi m.a. Jafnréttisstofu að málinu. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem við fjöllum um segir „að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs“. Jafnréttisstofa vildi ítreka að ekki hefði verið óskað eftir því með formlegum hætti að fá frá henni eitthvað varðandi smíði framkvæmdaáætlunarinnar, að verið hefði óformlegt samstarf eða samráð í gangi á þeim tíma sem tillagan var í smíðum en ekkert formlegt í sjálfu sér. Það er bagalegt því að þetta er eina stjórnsýslustofnunin sem sinnir þessum málefnum hér á landi.

Jafnréttisstofa gerir strax athugasemdir við stjórnsýsluna. Ég tek undir það. Mér finnst að við eigum að efla stjórnsýsluna frekar en að dreifa verkefnum. Bæði í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og eins í málefnum innflytjenda er verið að búa til ýmsa starfshópa, aðgerðahópa og verkefnisstjórnir. Allt kostar það peninga og annað slíkt í staðinn fyrir að efla þær stofnanir sem fyrir eru og búa yfir mikilli þekkingu og tækjum og tólum, og gætu unnið málin hraðar en ella. Það varðar líka yfirsýn yfir málefnasviðið og er bent á að augljós samlegðaráhrif fylgi því.

Í 5. kafla, sem snýr að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða, kemur fram að skipa eigi formlega verkefnisstjórn. Það á að kosta í kringum 4 millj. kr. auk launa sérfræðings. Það er á ábyrgð velferðarráðuneytisins. Þar bendir Jafnréttisstofa á að skynsamlegt væri að staðsetja þann starfsmann hjá Jafnréttisstofu og að fjármagnið fylgdi með eðli málsins samkvæmt, þannig að samlegðaráhrifin yrðu meiri og nýting á málaflokknum betri. Þessi starfsmaður gæti þá nýst til margra annarra hluta en bara til að samræma kynja- og jafnréttissjónarmið, sem þessi tiltekna fjárhæð á að fara í.

Einnig er gerð athugasemd við orðalag um að enn er talað um að þetta sé sérstakt verkefni með sérstakri stjórn og talað um þetta sem tilraunaverkefni þótt það sé búið að vera í lögum síðan árið 2000.

Vissulega er lagt til að þetta verði unnið í samstarfi við Jafnréttisstofu, en hér er bent á að það er auðvitað verkefni sem Jafnréttisstofa hefur unnið og hægt er að finna á heimasíðu hennar. Ég bendi fólki á, í ljósi umræðu varðandi þessi mál, að það er heilmikið efni á heimasíðu Jafnréttisstofu. Verkefnið samstiga.is er t.d. eitt af því sem fellur undir þann þátt sem við fjöllum hér um.

Það er líka til gátlisti. Bent er á að hann megi nota þegar verið er að gera stjórnarfrumvörp, af því að það er jú mikilvægt eins og við vitum og er í lögum að meta á öll frumvörp með tilliti til kynjasjónarmiða.

Varðandi 7. kafla, sem er úttekt á jafnréttislögum og stjórnsýslu jafnréttismála, leggur Jafnréttisstofa til að Ríkisendurskoðun verði falið að gera þessa úttekt. Það féllst nefndin reyndar á og gerir það líka að tillögu sinni.

Tillagan er kaflaskipt í A- og B-kafla, en B-kafli fjallar um vinnumarkað og launajafnrétti kynjanna. Jafnréttisstofa bendir á í b-lið, þar sem segir að unnið verði að útbreiðslu og innleiðingu ÍST-staðalsins um jafnlaunakerfi, kröfur og leiðbeiningar, að upplýsingar vanti um það hver staðan sé nú þegar varðandi útbreiðslu og innleiðingu á ÍST-staðlinum. Ég tek undir að það er auðvitað skynsamlegt að það liggi fyrir áður en farið verður af stað með eitthvert annað verkefni.

Þar undir eru nokkur verkefni sem fara á í í nokkrum liðum. Á tímabilinu 2016–2019 er gert ráð fyrir árlegum kostnaði í kringum 7 millj. kr. Verkefnin eru á ábyrgð nokkurra ráðuneyta eðli málsins samkvæmt.

Jafnréttisstofa telur að þetta eigi í rauninni að falla undir e-lið, þ.e. að rannsóknarverkefnum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti verði fylgt eftir með vitundar- og kynningarátaki stjórnvalda um aðgerðir stjórnvalda gegn kynbundnum launamun. Jafnréttisstofa telur að hún eigi að sjá um þessa vitundarvakningu með framlagi eins og hvað annað sem hér er lagt til að hún geri, því að samkvæmt jafnréttislögum er þetta beinlínis í hennar verkahring.

Í kafla C, Kyn og lýðræði, er m.a. talað um fjölmiðla.

Í d-lið í kafla C segir að vinna eigi að stefnumótun og vitundarvakningu meðal fjölmiðla. Við höfum áður fjallað um fjölmiðlanefnd í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég tek undir þá áréttingu Jafnréttisstofu að setja beri aukið fjármagn í fjölmiðlanefnd því að það eru takmarkaðir fjármunir þar inni og við þekkjum að fjölmiðlanefnd getur því miður ekki sinnt starfi sínu sem skyldi og skilað okkur einhverjum skýrslum um það hvernig gengur og hvað má betur fara. Í lögum um fjölmiðla sem taka til fjölmiðlanefndar er gerð krafa um upplýsingar á sviði kynjajafnréttis, þannig að það þarf auðvitað miklu frekar að efla fjölmiðlanefnd en að móta stefnu fyrir fjölmiðla. Það er skynsamlegt að þeir móti sínar stefnur sjálfir.

Ég geri athugasemd við orðalagið í a-lið í kafla C, að kanna aðgengi kvenna og karla að mismunandi fjölmiðlaefni. Auðvitað hlýtur að vera átt við aðgengi að fjölmiðlum, ekki að efninu sem slíku, og er margt til um það.

Í b-lið í kafla C er talað um hvort og þá hvernig umfjöllun um konur og karla sé lituð af staðalímyndum um kynhlutverk. Hér er bent á að á Jafnréttisstofu sé mikil þekking á fjölmiðlum og birtingarmyndum kynjanna og að starfsfólk Jafnréttisstofu sinni kennslu í Háskólanum á Akureyri um þessi málefni í fjölmiðlafræðinni. Svo eru góðar tengingar við Háskóla Íslands í blaða- og fréttamennsku.

Hér er líka bent á að fyrirvari er gerður um fjárframlög til fjölmiðlanefndar, sem er umhugsunarefni. Kostnaðaráætlun er 4 millj. kr. en þetta er staðurinn í skýrslunni þar sem fyrirvari er gerður. Það er hvergi gerður fyrirvari um fjármögnun nema þarna, þ.e. þegar kemur að umfjöllun kynjanna og lýðræði í fjölmiðlum. Það var í sjálfu sér engin niðurstaða hvað það varðar, ekki var tekið á því að það yrði gert. Hér er samt bara verið að tala um einhverjar 4 millj. kr., reyndar er ekki einu sinni sagt „á ári“, heldur bara 4 millj. kr., með fyrirvara um að fjárframlög fáist til verkefnisins. Þetta er áætlun fyrir tímabilið 2016–2019.

Í 12. lið, þar sem farið er inn á greiningu á stöðu flóttamanna og hælisleitenda út frá kyni og jafnrétti kynja, bendir Jafnréttisstofa á að fyrir liggi að ekki sé með fullnægjandi hætti tekið tillit til mannréttinda- eða jafnréttissjónarmiða í íslensku löggjöfinni og þurfi auðvitað að bæta úr því. Vernd minnihlutahópa er ekki tryggð eða leiðir til að þeir geti leitað réttar síns, þ.e. margar tilskipanir Evrópusambandsins hvað þetta varðar hafa ekki enn þá verið lögfestar. Við hljótum að þurfa að bæta úr því.

Kafli D fjallar um kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Í 13. lið er ýmislegt að finna. Þar er bent á að gengið hafi verið frá samkomulagi sem heilbrigðisráðherra var ekki aðili að þótt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna skilgreini ofbeldi í nánum samböndum sem lýðheilsumál. Framsögumaður fór aðeins yfir það áðan. Í nefndarálitinu er talað um að velferðarráðuneytið muni hafa yfirumsjón með verkefninu og áréttað er að fá þurfi formlega aðkomu heilbrigðisráðherra og heilbrigðisþjónustunnar. Ekki var lagt til með beinum hætti að hann yrði aðili máls, en það er skýrt að verið er að reyna að koma þessu þar inn því að það á ekki síst heima þar.

Eitt af lögbundnum verkefnum Jafnréttisstofu er að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld. Hér bendir Jafnréttisstofa á að hún hafi sótt um styrk til Evrópusambandsins til að fara af stað með verkefni sem hefur það að markmiði að efla þverfaglegt samstarf þegar kemur að ofbeldi gegn konum og börnum á Norðurlandi eystra. Þar er búið að bjóða öllum þeim aðilum að verkefninu sem mestu máli skipta í því sambandi; sveitarfélögum, lögreglunni, heilsugæslunni, skólum og öðrum þeim sem vinna með kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess, sem er auðvitað afskaplega mikilvægt. Þar á sérfræðihópur sem skipaður er fulltrúum samstarfsaðila að hittast reglulega og útfæra samstarfið og þróun verkefnisins í heild og á niðurstaða að liggja fyrir sem allra fyrst um hvort styrkurinn sé veittur.

Framsögumaður fór ágætlega yfir jafnrétti í skólastarfi sem búið er að vera í lögum í 40 ár og því miður hafa skólar ekki getað uppfyllt það nema að takmörkuðu leyti margra hluta vegna. Því miður treysta margir sér ekki til þess að sinna jafnréttisfræðslu. Það er eins og með kynjafræði, það gengur erfiðlega að sinna þeirri kennslu og finnst mörgum kennurum þeir ekki hafa tilskilin tæki og tól eða ekki hafa fengið næga fræðslu um það í námi sínu til að geta kennt kynjafræði.

Það er margt fleira í umsögn Jafnréttisstofu og er bent á að í 29. lið framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar, þ.e. í síðustu framkvæmdaáætlun um jafnréttismál, hafi mennta- og menningarmálaráðuneytið veitt styrk upp á rúma milljón til að fara í jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Það var samið við kennara í nokkrum skólum um að fara í verkefnið og var útbúið kennsluefni sem var tilraunakennt. Féð dugði kannski bara til að greiða höfundunum laun fyrir vinnuna og hefði þurft að fá meira fjármagn til þess að fylgja því enn þá frekar eftir. Jafnréttisstofa lagði til að því yrði bætt inn í áætlunina en það er ekki lagt til hér.

Í b-lið í kafla E er talað um þátttöku kynja í félagslífi framhaldsskólanna, en það er líka óskýrt hvernig á að gera það. Það er hægt að setja margt fallegt á blað en svo er erfiðara að framkvæma það í raunheimum og hvernig við ætlum að meta það.

Hér var líka gerð athugasemd við orðalag varðandi e-lið sem hljómar svona: „Framkvæmd rannsóknar á stöðu kynjamenningar í háskólum.“ Jafnréttisstofa segir að óljóst sé hvert markmiðið sé með fyrirhugaðri rannsókn.

Hér tíminn að verða búinn. Þetta er viðamikið mál og það skiptir miklu máli. Þess vegna hefði ég viljað hafa verulega umræðu um það því að sem kona þykir mér það skipta miklu máli hvernig við ætlum að standa að svona nálgun í samfélaginu. Við tölum gjarnan um mismuninn fyrst og fremst þegar kemur að launum, en ekki endilega þegar kemur að mörgu öðru. Hér eru nefnd mjög mörg verkefni og alls konar nálgun þar sem hægt er að koma kynjasjónarmiðum betur inn og vekja ungt fólk og ekki síður eldra fólk til vitundar um það hvers vegna þetta skiptir máli.

Samband íslenskra sveitarfélaga er líka með athugasemdir og ágæta umsögn varðandi þetta mál og hefur hvatt til þess að sveitarfélögin séu með frá upphafi þegar svona áætlanir eru gerðar. Þau gera athugasemdir við að hafa ekki fengið tækifæri til þess og nefna að þar sem t.d. leikskólar séu á þeirra forræði sé athugavert að hafa ekki fengið að taka þátt í gerð framkvæmdaáætlunarinnar. Hér er talað um þátttöku karla í jafnréttismálum og er lagt til átaksverkefni í 18. lið til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum. Það snýr fyrst og síðast að leik- og grunnskólum.

Ég sé að tími minn er á þrotum. Ég gæti svo sem alveg talað um þetta töluvert lengur en þetta er það helsta sem ég vil gera grein fyrir og sem mér hefði þótt bragur að að taka meira tillit til.