145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það fór fram hjá mér það síðasta, þ.e. fyrirvari um það ef fjárframlög fengjust ekki. Ég játa að það fór líka fram hjá mér hafi það komið fram fyrir nefndinni. En við erum auðvitað búin að fjalla oft og með löngu millibili um þessi mál. Það er heldur ekki tekið fram í nefndarálitinu, við hefðum þá þurft að hnykkja á því þar. Það hefði farið betur á því þannig að það lægi klárlega fyrir.

Jú, ég tek undir það að verkefnin verða náttúrlega ekki öll unnin í ráðuneytinu og ég hef trú á því að eitthvað af þessum verkefnum fari til Jafnréttisstofu og til annarra staða í samfélaginu. En það er samt hægt að forma þetta betur, eins og ég fór yfir. Mér fannst þetta vel fram sett og ekki bara af þeirra hálfu, það er gagnrýni á samráðsleysi, við þekkjum það. Það kom líka fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, eins og ég fór yfir í lokin, að betra hefði verið að hafa fengið að vera með í samráðinu frá upphafi og ákveða hvernig best væri að útfæra þetta, af því að hér er auðvitað tiltekinn kostnaður við hvert og eitt verkefni og er vissulega gott að meta það. En það hefði að ósekju mátt setja beinlínis eitthvert verkefnanna strax undir Jafnréttisstofu og fela henni það. Jafnréttisstofa fer auðvitað með stjórnsýsluhlutverk og hefur lögum samkvæmt með að gera sumt af því sem ég fór yfir.