145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykja þeir þingmenn sem töluðu á undan mér hafa farið nógu ítarlega yfir málið sjálft. Mér finnst alltaf mikilvægt þegar við ræðum jafnrétti að taka með inn í umræðuna menningarlega vinkilinn, sem verður ekki festur í lög, verður ekki settur í stefnu stjórnvalda heldur verður einungis settur af okkur sjálfum, fyrir okkur sjálf, í hegðun okkar og viðhorfum. Það er nefnilega þannig, alla vega að mínu mati, að mannskepnan er í eðli sínu fordómafull. Ég held að við séum öll haldin einhvers konar fordómum gagnvart einu eða öðru. Við þurfum að vera meðvituð um það og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það eitt að við köllum okkur ekki fordómafull þýðir ekki að við séum sjálfkrafa frjáls undan því oki sem fordómar eru gagnvart samfélaginu og fórnarlömbum fordómanna, sem ég vil meina að sé einnig það fólk sem hefur fordómana sjálft. Það missir af miklu sjálft. Ég segi stundum að ég vorkenni fordómafyllsta fólkinu mjög mikið vegna þess að það missir af svo miklum tækifærum til að kynnast öðru fólki í þessum heimi, alveg sama hvaða hópi þeir fordómar beinast gegn.

Eina leiðin, að mínu mati, til þess að ná fram raunverulegu jafnrétti er ef við tileinkum okkur sem einstaklingar, ekki sem þingmenn eða löggjafi heldur sem einstaklingar, meðvitaða leitan eftir því að horfast í augu við okkar eigin fordóma og tækla þá, berjast meðvitað gegn þeim, að spyrja okkur spurninga á borð við hvers vegna sé kynjahalli hér eða þar og reyna að svara þeim spurningum með uppbyggilegum hætti þannig að hægt sé að koma í veg fyrir það sama seinna meir.

Það er í raun og veru sama hvert maður lítur í samfélaginu, maður sér næstum því alltaf, þori ég að fullyrða, einhvern kynjahalla. Stundum snýst hann við, sem er áhugavert mynstur, af og til og það eru ýmsar ástæður fyrir því, sem er ekki síður áhugavert. Ég efast um að við munum nokkurn tímann búa í samfélagi þar sem karlar og konur eða fólk af öðrum kynjum er akkúrat í því hlutfalli sem það er af þjóðinni. En ég held að við getum komist heldur nálægt því.

Ég held einnig að það þurfi hugsanabreytingu til þess, að fólk þurfi að líta öðruvísi hvert á annað til þess að það takist. Jafnrétti getur ekki gengið út frá því sem gefnu að við séum öll eins og að við njótum sama réttar vegna þess að við eigum svo margt sameiginlegt, vegna þess að það er svo margt sem við eigum ekki sameiginlegt. Það þarf að vera í lagi.

Þess vegna þurfum við að horfa á eiginleika hvert annars óháð því af hvaða kyni einstaklingurinn er almennt og í daglegu lífi okkar. Þetta fer auðvitað inn á allt svið þjóðlífsins, ekki bara í stjórnmálunum. Að sjálfsögðu er ég hlynntur þessu máli, eins og ég hygg að allir á Alþingi séu og þótt víðar væri leitað, og fagna framkomu þess. En mér þykir mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að þetta er verkefni sem við getum sennilega aldrei leyst þar sem hluti ástæðunnar felst í viðhorfi okkar sjálfra sem einstaklinga, ekki bara sem stjórnmálamanna.