145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í raun alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Eins mikilvægt og ég tel að við skoðum heiminn í kynjuðu ljósi og það hvernig hlutirnir koma með mismunandi hætti við kynin, þá þurfum við einnig að taka alls konar fleiri breytur inn í dæmið og samspil ólíkra breytna. Það að vera lágvaxinn karl getur líka skipt máli þar sem fleiri breytur koma inn í. Ég er líka alveg sammála hv. þingmanni í því að auðvitað þurfum við að ræða þetta sem víðast úti í samfélaginu á sem flestum stöðum í menningarlegu samhengi. En mig langar samt að segja við þetta tækifæri að ég held að skólar séu þar líka mjög mikilvægir vegna þess að þeir geta verið mjög gott tæki til þess að jafna aðstöðumun barna sem búa á ólíkum heimilum. Hægt er að vekja upp ýmiss konar umræður. Líkt og hv. þingmaður nefndi þá er jákvætt að þjálfa börn í rökfræði, það væri samfélaginu svo sannarlega til góða.

Ég held einmitt það sé mikilvægt í að fá þjálfun í því að skoða samfélag sitt með gleraugum þar sem kyn er ein víddin. Það eru auðvitað fleiri þættir eins og t.d. ólíkur menningarlegur bakgrunnur. Ég held að þar getum við gert svo miklu betur. Ég held reyndar og ég treysti því að við séum að þokast þar áfram í rétta átt. Í það minnsta sé ég breytingu varðandi nám barnanna minna sem nú eru í grunnskóla, (Forseti hringir.) samanborið við það hvernig trúarbragðafræðsla var þegar ég var sjálf í grunnskóla, ef við nefnum bara dæmi.