145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið til máls hér við 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og um þetta nefndarálit því ég verð að viðurkenna að ég skil hreinlega ekkert í þessu máli. Það segir hér í nefndaráliti frá meiri hluta hv. velferðarnefndar, með leyfi forseta:

„… að Tryggingastofnun ríkisins skuli greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað. Með frumvarpinu er lögð til viðbót við málsgreinina þess efnis að hið sama gildi liggi fyrir að feðrað barn sé móðurlaust af annarri ástæðu en þeirri að móðir hafi fallið frá.“

Ég skil svo sem alveg þennan part. Það sem ég hins vegar skil ekki er hvernig eigi að teygja þetta yfir á það að barn geti ekki talist móðurlaust að íslenskum lögum þótt það hafi verið alið af staðgöngumóður vegna þess, eins og er hreinlega áréttað í nefndarálitinu frá meiri hluta nefndarinnar, þá er staðgöngumæðrun óheimil samkvæmt íslenskri löggjöf. Það er bara þannig. Um það er ekkert hægt að karpa þannig að mér finnst frumvarpið ekki ganga upp miðað við núgildandi löggjöf.

Hins vegar kemur einnig fram í nefndaráliti meiri hluta hv. velferðarnefndar að bæði samtökin Ljónshjarta og umboðsmaður barna hafi lagt til viðbót við 20. gr. laga um almannatryggingar þess efnis að Tryggingastofnun ríkisins greiði sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, vegna sjúkdóma eða greftrunar og að þetta ætti að taka upp í lögin. Mér finnst skrýtið að meiri hluti hv. nefndar komist að þeirri niðurstöðu að fjalla þurfi um það og koma fram með þær breytingar í sérstöku þingmáli sem fái fulla þinglega meðferð. Það sem ég skil ekki er þetta stangast ekki á við nein lög, það er í lögum nú þegar að við ákveðin skilyrði sé hægt að veita þessi framlög. Eins og þetta snýr fyrir mér er miklu nær að gera breytingu á lögum og kippa þessu inn þar sem þetta er jú í samræmi við þau lög sem nú þegar eru fyrir.

Ég get engan veginn fallist á að með þessu lagafrumvarpi sé farið í breytingu sem í raun opnar bakdyramegin smugu fyrir það, það sé gefið nikk um það að staðgöngumæðrun sé partur af kerfinu. Við vitum jú öll að það liggur fyrir frumvarp þess efnis. Það eru mjög skiptar skoðanir um það svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég er þeirrar skoðunar að full umræða þurfi að fara fram um það á þeim vettvangi en ekki að fara að lauma einhverju inn í frumvarpið sem má kannski segja að líti út fyrir að vera lítið og saklaust. Mér finnst þess vegna mun nær að taka inn það sem Ljónshjarta og umboðsmaður barna bæta við. Það mundi styrkja stöðu margra barna og jafna stöðu þeirra. En þessa tillögu get ég engan veginn tekið undir og heldur ekki þá breytingartillögu sem lögð er til af hálfu nefndarinnar.