145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt haft eftir hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að nefndin lagði talsverða vinnu og miklar pælingar, ef svo má segja, í málið þar sem um er að ræða flækjustig þar sem annars vegar stangast á réttindi barna og hins vegar ólögleg staðganga. Nefndin ákvað að reyna eftir fremsta megni að finna annað orðalag en staðgöngumæðrun í textann og ritari nefndarinnar leitaði þar til sérfræðinga og lagði á sig talsvert mikla vinnu til að mæta þeim sjónarmiðum svo betur mætti fara, en það tókst ekki. Því varð niðurstaða nefndarinnar sú að þrátt fyrir þessa siðferðislegu flækju má segja, yrði réttur barnsins að vera ofan á, þ.e. jafnræði allra barna yrði tryggt með þessari lagabreytingu.

En ég spurði hv. þingmann í fyrra andsvari hvort hún teldi að það væri rétt að skilja eftir þennan smáa hóp. Það liggur fyrir og nefndin tók það til umfjöllunar að þessi breyting á 20. gr. mun ekki koma til fulls á móts við þann hóp sem um ræðir. Þannig að það var rætt. Þess vegna kemur þetta fram líka í nefndaráliti til áherslu.

Ég vildi kannski segja þetta fyrst og fremst, að leggja áherslu á jafnræði barna og að betra orðalag hafi ekki fundist. En ég spyr þingmanninn aftur, þar sem (Forseti hringir.) þessi breyting á 20. gr. mun ekki mæta hópnum og við viljum ekki láta þetta fólk bíða í mörg ár, (Forseti hringir.) hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að mæta þeim þá með öðrum hætti?