145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna mikið. Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur um þetta mál og þau efnisatriði sem hún fór í.

Við höfum gagnrýnt staðgöngumæðrun mikið. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi, af því að það er ekki tekið fram í nefndarálitinu, um hversu mörg börn er að ræða sem búa á landinu nú þegar sem þetta á við um. Liggja þær upplýsingar fyrir? Það væri áhugavert að vita það. Er hægt að bregðast við því með einhverjum hætti frekar en að innleiða þetta í löggjöfina gegn íslenskum lögum? Hér er í raun verið að leggja til að hægt sé að brjóta íslensk lög. Það er bara ekki hægt að horfa á það öðruvísi því að áréttað er að staðgöngumæðrun sé óheimil samkvæmt íslenskri löggjöf en samt sem áður á Tryggingastofnun að taka þátt í því að greiða barnalífeyri gegn einhverju sem er óheimilað.

Ég spyr hv. framsögumann nefndarinnar, hún hefur kannski upplýsingar um það: Um hversu börn er hér að ræða sem eru nú þegar komin til landsins með þessum hætti, þ.e. sem eru annaðhvort ættleidd af einhleypum karli eða sem karl hefur eignast með aðstoð staðgöngumæðrunar annars staðar en á Íslandi?

Ég tek undir tillögu sem Ljónshjarta og umboðsmaður barna lögðu til við 20. gr. laganna um almannatryggingar, sem felur það í sér að Tryggingastofnun greiði sérstök framlög vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun, eða af öðru sérstöku tilefni. Þau bentu líka á að hægt væri samkvæmt 1. mgr. 60. gr. barnalaga að úrskurða þann sem meðlagsskyldur til að láta af hendi slíkt framlag vegna barns.

Mér var að berast svar núna áðan við fyrirspurn sem ég sendi til félags- og húsnæðismálaráðherra þar sem ég spurði hversu mörg börn hefðu hlotið barnalífeyri eða menntunarframlag frá Tryggingastofnun árið 2014 og 2015 vegna foreldramissis, hversu háar greiðslurnar væru og hversu stór hluti þær hefðu verið af heildargreiðslum barnalífeyris. Það kemur inn á þetta mál og er eitt af því sem Ljónshjarta hefur unnið að til að ná fram réttindum þessa hóps.

Með leyfi forseta, ætla ég að fá að lesa svarið hérna því að það kemur að einhverju leyti inn á það mál sem hér er um að ræða nema það sem varðar staðgöngumæðraþáttinn.

„Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins var barnalífeyrir vegna andláts foreldris greiddur vegna samtals 901 barns árið 2014 og vegna samtals 880 barna árið 2015, en ekkert ungmenni á aldrinum 18–20 ára í skóla eða starfsþjálfun fékk greiðslur þessi ár vegna missis foreldris. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins voru útgjöld vegna barnalífeyris vegna andláts foreldris samtals 288 millj. kr. árið 2014, sem nam 8,46% af heildargreiðslum barnalífeyris. Samtals voru þessi útgjöld 286 millj. kr. árið 2015, sem nam 8,14% af heildargreiðslum barnalífeyris.“

Það er ágætt að fá þessar tölur fram. Ég mundi vilja að við löguðum lögin í kringum þetta, eins og Ljónshjarta og umboðsmaður barna leggja til, frekar en að opna á eitthvað sem gengur í raun gegn lögunum.

Ég ætla svo sem ekkert að ræða þetta mál neitt lengur. Mig langaði fyrst og fremst að vita hvort hægt væri að bregðast við þeim tilvikum sem nú þegar væru til staðar á landinu án þess að opna fyrir það sem hér er verið að reyna að gera og kemur inn á hið umdeilda mál, staðgöngumæðrun.