145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, þar sem ég var ekki búin að afla þessara gagna fyrir umræðuna í kvöld, að það er full ástæða til þess að skoða betur fyrir 3. umr. hvaða tölur liggja þarna að baki, þ.e. hversu stór þessi hópur er. Ég mun koma því áleiðis til formanns nefndarinnar um að það verði skoðað sérstaklega.

Yfirferð málsins í velferðarnefnd var mjög ítarleg og góð, eins og ég hef áður sagt. Eins og fram kom í andsvari hv. þingmanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur hér áðan virðast hvorki þau né aðrir hafa rætt þetta mál af einhverri dýpt. Það virðist ekki vera að fólk sé með einhverja frábæra, borðleggjandi lausn til þess að leysa þetta mál þannig að siðferðislegum kröfum sé mætt að fullu. Eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði þurfum við einfaldlega að gera það upp við okkur hvaða leið við viljum fara, hvernig við viljum raða upp þeim hagsmunum sem við þurfum að líta til þegar við metum málið.

Að mínu mati er þetta besta lausnin. Ég held að þetta sé það sem við þurfum að gera í ljósi kringumstæðna og í ljósi stöðunnar, og bregðast við hlutum sem eru til staðar í samfélagi okkar, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.