145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[21:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að það stendur í frumvarpinu og segir í því að þetta snúist um jafnrétti barna. Ég er alveg jafn ósammála því þótt það standi í frumvarpinu. Ég held því fullum fetum fram að þetta hafi ekkert með jafnrétti að gera og það sé í raun og veru ekki þannig að það sé skylda almannatrygginga að greiða einhvers konar lífeyri með öllum börnum. Það hefur allra síst með eitthvert jafnrétti að gera, enda eru greiðslur til barna mjög mismunandi. Hér er farið að eins og alltaf hefur verið gert, notuð eru hugtök eins og jafnrétti ef menn vilja ná einhverju fram sem mönnum finnst allt í lagi gera, finnst það réttlátt jafnvel. Ég sé í sjálfu sér ekkert réttlæti við það, þegar fólk fer ekki að lögum og hefur þær skyldur að framfæra börnin sín, að það eigi rétt á greiðslum úr sameiginlegum sjóðum, af því að menn geta vísað til barnsins. Ég veit að þetta er erfið umræða. Þetta er ekki vinsæl umræða. En ég held að menn eigi ekki að nota hugtök eins og jafnrétti í svona málum og segja frekar: Mér finnst réttlátt að greitt sé úr sameiginlegum sjóðum af því að um er að ræða barn. Þá skulu menn bara segja það, jafnvel þótt foreldri fari ekki að lögum.