145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[21:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók ekki afstöðu til tilvistar barnalífeyrisins eða forsendna fyrir honum í ræðu minni og ætla satt best að segja ekki að tjá neinar skoðanir hér og nú á honum að óathuguðu máli. Eftir stendur að löggjafinn hefur ákveðið að hafa þetta fyrirbæri, barnalífeyri, og eftir stendur að mér finnst ekki réttlátt, hvort sem það er kallað jafnrétti eða bara réttlæti, að það bitni á börnunum að foreldrar þeirra kjósi að nota þjónustu staðgöngumóður. Fyrir mér er þetta ekki spurning um lagatækni heldur mat á því hvað við ætlum að láta ráða ákvörðun hérna. Mér finnst réttindi barnsins vega þyngra en spurningin um það hvort þetta sé lagatæknilega snyrtilegt eða hvort það standi jafnrétti eða ekki.

Ég hefði nákvæmlega sömu skoðanir og hefði haldið sömu ræðuna mínus orðið jafnrétti ef eitthvað annað orð hefði staðið þarna og líka ef það væri ekki þarna yfir höfuð. Það er ekki hugtakið „jafnrétti“ sem stýrir því hvort ég styð þetta frumvarp eða þeirri skoðun sem ég er á. Ég vek einnig athygli á því að í frumvarpinu sjálfu, í lagatextanum sem er lagður til, kemur hvergi orðið jafnrétti fram. Það er málsliður sem lagt er til að verði bætt við, með leyfi forseta:

„Hið sama gildir ef fyrir liggur að feðrað barn sé móðurlaust af annarri ástæðu en greinir í 1. mgr.“

Þetta er í frumvarpinu. Síðan er í nefndarálitinu tilgreind breyting sem er svo, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „barn verði ekki feðrað“ í 4. mgr. 20. gr. laganna kemur: ekki sé unnt að tilgreina annað foreldri barns. Hið sama gildir þegar skilríki liggja fyrir um að staðgöngumóðir sé móðir barns.“

Þarna er ekkert minnst á jafnrétti og ég held að það sé alveg óþarfi að minnast á jafnrétti, vegna þess að fyrir mér er ekki aðalatriði hvort það orð er notað eða eitthvað annað. Fyrir mér snýst þetta um togstreitu milli ákvörðunar löggjafans um að hafa staðgöngumæðrun óheimila en að sama skapi (Forseti hringir.) neyða þau sig til þess að búa til löggjöf sem er andstæð hagsmunum barna. Ég er í grundvallaratriðum á móti því.