145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að taka heils hugar undir það sem kom fram í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur. Það er mjög mikilvægt að við förum í langtímaáætlun um þessa stóru pósta í samfélagi okkar. Ég hef velt því mikið fyrir mér hvort ekki þurfi að skipa oftar þverpólitískar nefndir þingmanna um svona stóra málaflokka til að geta haldið áfram á einhverri sameiginlegri vegferð sem er ekki alltaf undir því komin hver fer með völd. Þetta eru málefni sem allir þingmenn eiga að láta sig varða og finna sameiginlegar lausnir á og það var akkúrat megininntak þess sem mig langaði til að ræða núna af því að ég er enn hugsi eftir þennan rosalega upplýsandi fund með umboðsmanni Alþingis í gær þar sem hann endurtók margt sem við ættum að vera búin að finna einhverjar leiðir til að bregðast við.

Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis ræddi á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær var mikilvægi þess að hér fari fram vönduð lagasetning og að við nýtum okkur þá fagþekkingu sem finnst t.d. í undirstofnunum ráðuneyta og í ráðuneytunum sjálfum til að lagasetningin verði vönduð. Ég man eftir því að búin var til ágætisbók til að hafa til hliðsjónar hvernig vönduð lagasetning er gerð. Því miður er það svo að alltaf við þinglok og þá sér í lagi við lok kjörtímabils þá virðast allir gæðastaðlar hverfa og það eina sem virðist vaka fyrir ráðherrum og þingmönnum er að koma lögum í gegn eins hratt og mögulegt er til að geta fengið heiður fyrir að hafa komið einhverjum málum í gegn. Því tel ég mjög brýnt að við finnum leiðir til þess að vinna saman, þverpólitískt, að stórum málum á vandaðan hátt, því að (Forseti hringir.) vond lagasetning getur haft slæm áhrif á mjög marga aðila í samfélagi okkar.


Efnisorð er vísa í ræðuna