145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér er mjög umhugað um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, ekki síst vegna þess að nýlega kom frumvarp frá menntamálaráðuneytinu þar sem ákveðnar kerfisbreytingar voru lagðar til grundvallar. LÍN-málið er nú í umsagnarferli hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það er ljóst að þegar um eins umfangsmiklar breytingar er að ræða og við erum að tala um núna í LÍN-frumvarpinu eru mjög skiptar skoðanir á gæði þeirra, forsendum og t.d. hvaða menntastefna liggur til grundvallar. Ég skil ekki af hverju samráðsferlið sem var til grundvallar þessu frumvarpi var jafn rýrt og raun ber vitni. Það er nánast undantekningarlaust þannig að þeir aðilar sem voru fengnir til þess að skila inn umsögn kvarta yfir því að það hafi verið eins konar sýndarsamráð í gangi við gerð frumvarpsins. Þess vegna sé ég ekki hvernig hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að geta afgreitt frumvarpið, þar sem það er ekki nógu vel unnið hjá ráðuneytinu. Það er t.d. ekki búið að gera neina kynjaða hagfræðigreiningu á því hvaða áhrif hærri greiðslubyrði láglaunastétta mun hafa til að mynda á konur og ákveðnar stéttir.

Forseti. Ég held að það væri betra ef við mundum reyna að búa til þverpólitískan samstarfsvettvang, samráðsvettvang, til þess að ræða svona miklar kerfisbreytingar. Svona lagað gerist einungis í sátt, annars fer næsta stjórn að hringla með þetta í þokkabót. Við þurfum að taka það til okkar sem við erum búin að læra á þessu kjörtímabili, að þverpólitískar nefndir, eins og útlendinganefndin, skila árangri. Við getum alveg tekið það til fyrirmyndar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna