145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var mikið fagnaðarefni þegar hæstv. menntamálaráðherra ákvað að setja niður diplómanám í lögreglufræði fyrir starfandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri. Þrátt fyrir að gagnrýni kæmi á þá ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra vil ég segja að Háskólinn á Akureyri var sannarlega vel að því kominn að taka við þessari námsbraut. Það hefur sýnt sig að nú þegar hafa yfir 170 einstaklingar sótt um nám á þessari námsbraut. Það er gleðiefni að kynjahlutfall er til þess að gera nokkuð jafnt og nú þegar hefur háskólinn samþykkt 130 umsóknir.

Mig langar til að fara aðeins yfir að dreifingin eftir kjördæmum er þannig að í Norðausturkjördæmi eru 18% þeirra sem hafa sótt um, úr Norðvesturkjördæmi koma 15,5%, úr Reykjavík 25,5%, Suðurkjördæmi 14,5%, Suðvesturkjördæmi 25,5% og erlendis frá 1,2% nemenda.

Þegar ég les þessar tölur minnist ég þess að ég var á ráðstefnu í London fyrir nokkrum árum þar sem ég hitti skólastjórnanda úr bandarískum háskóla og hann sagði mér að þar væru 4.000 staðarnemendur en 40.000 nemendur vítt og breitt um heiminn. Það er nákvæmlega það sem Háskólinn á Akureyri býður upp á, að nemendur geti unnið námið heima hjá sér, komið í staðarlotur (Forseti hringir.) og verið í fjarnámi, sem gerir það að verkum að mun fleiri telja sig geta stundað þetta nám með góðu móti.

Til hamingju, Háskólinn á Akureyri.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna