145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undanfarna daga hefur mikið verið í umræðunni breytingartillaga mín í atvinnuveganefnd varðandi búvörusamninginn um að það væri heimilt að fella niður ríkisstyrki ef dýravelferðarlögin væru brotin og bændur stunduðu dýraníð. Ég ætla ekki þeim 26 þingmönnum sem greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu að þeir meini með því að það sé í lagi að veita breingreiðslur til þeirra sem stunda dýraníð. En ég spyr mig líka: Nú lá þessi búvörusamningur fyrir þar sem ekkert var tekið á þessum málum. Menn vöknuðu ekki fyrr en þessi tillaga mín var lögð fram. Menn felldu hana og fóru þá að reyna að gera einhverja bragarbót á. Nú liggur fyrir í atvinnuveganefnd að menn eru að reyna að mæta því sjónarmiði. En er gengið nógu langt? Má stunda dýraníð að hluta til í búrekstri, ef það snertir ekki beint beingreiðslurnar? Er það í lagi? Eigum við ekki að ganga alla leið fyrir varnarlausar skepnur í þessu landi og segja: Það kemur ekki króna úr ríkiskassanum til þeirra sem stunda dýraníð af einhverju tagi eða brjóta lög gegn velferð dýra? Ég held að almenningur í landinu vilji að við göngum það langt fyrir varnarlausar skepnur. Og það er ekki lýðskrum að tala svona. Árið 2012 þegar við samþykktum lög um dýravelferð lagði þáverandi atvinnuvegaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fram í þeim lögum að hægt væri að svipta menn ríkisstyrk ef brotið væri á lögum um dýravernd. Þá gekk forusta Bændasamtakanna fram og sagði að gera þyrfti breytingar á búvörulögum. Nú eru búvörulög opin. Við gerum þær breytingar, göngum alla leið og líðum ekki dýraníð með neinum hætti. Auðvitað veitum við engum ríkisstyrk sem það stundar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna