145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og hann gerir sér líklega grein fyrir myndar samningurinn lagalegan ramma utan um þær skuldbindingar sem ríkin setja sér sjálf. Hv. þingmaður spyr hvað felist í þessu. Eitt af því sem við höfum lýst yfir er að sameiginlegt markmið okkar sé að minnka losun útblásturs um 40% fyrir árið 2030 miðað við þá árið 1990 eins og kom fram í framsögu minni. Einnig leggjum við mikla áherslu á skógrækt og landgræðslu ásamt fleiri þáttum sem við erum að setja fram.

Varðandi þá stefnu sem síðasta ríkisstjórn var með er eitthvað verið að vinna með hana. Ég tel að þetta sé þannig mál að það muni halda áfram að þróast. Eins og það er vaxið og það hvernig hugarfarið hefur breyst í þessum efnum finnst mér að það eigi að geta myndast nokkuð þverpólitísk sátt um framvindu þess og hvernig við setjum þau markmið fram. Þetta er það sem við erum að gera akkúrat á þessum tímapunkti og ég er afskaplega ánægð með að við séum komin svona langt með þetta og hvernig íslensk stjórnvöld hafa staðið að þessu sem og hvernig var unnið að málinu í umhverfis- og samgöngunefnd.