145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra og fagna þessum degi. Ég held að við séum öll ánægð með að hér sé verið að mæla fyrir fullgildingu Parísarsamningsins sem markaði mikilvæg þáttaskil í loftslagsmálum um heim allan.

Mig langar að spyrja sérstaklega um þá þætti sem varða skuldbindingar Íslands. Nú ætlum við að vera þátttakendur innan ramma Parísarsamningsins en fram kemur í texta þingsályktunartillögunnar að endanlega útfærðar skuldbindingar Íslands fram til ársins 2030 liggi ekki fyrir fyrr en samið hefur verið við Evrópusambandið. Einnig kemur fram að Ísland hafi átt óformlega fundi ásamt Noregi með Evrópusambandinu um þessa sameiginlegu framkvæmd og að fyrir liggi pólitískur vilji til að ná samkomulagi. Loks kemur fram að formlegar samningaviðræður hefjist á næstunni og að áætlað sé að þeim ljúki á árinu 2017. Síðar í þessum sama texta kemur ítrekað fyrir orðið „metnaðarfullt“. Einhver bókmenntafræðingur mundi tala um nástöðu þegar það kemur, held ég, fjórum sinnum fyrir í 15 línum. Það er í sjálfu sér gott að Ísland vilji vera metnaðarfullt í loftslagsmálum, setja fram metnaðarfull markmið og vilji metnaðarfullan samning. Þetta er allt saman gott og blessað. Við viljum líka áfram vera í fararbroddi ríkja í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, en ég spyr: Hvert er samningsmarkmið Íslands í þessum samskiptum við Evrópusambandið? Ef Ísland ætlar að standa undir nafni og vera svo metnaðarfullt að það þurfi að margítreka það hljóta forustumenn ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að hafa það á takteinum hver samningsmarkmið Íslands séu.