145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rosalega er gaman að vera hérna í dag. Ég verð að segja eins og er að það er sérstakt að það komi frá fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna að saka Framsóknarflokkinn um að vera ekki sjálfstæður gagnvart Evrópusambandinu. Flokkur hennar sótti sjálfur um aðild að Evrópusambandinu. Eitt er að við stöndum hér og erum að fjalla um þennan skemmtilega og mikilvæga samning sem Parísarsamningurinn er en að heyra svo frá fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna að hún hafi virkilega einhverjar áhyggjur af því að við séum ekki sjálfstæð gagnvart Evrópusambandinu finnst mér mjög skemmtilegt og pínulítið mótsagnakennt. Ég verð að segja það alveg eins og er. (Gripið fram í.)

Markmið okkar er mjög einfalt. Við viljum að sjálfsögðu minnka þessa losun og ég hef sagt það í framsögu minni en það mætti halda að ráðherrann fyrrverandi sem er oft klæddur í svart hafi bara hreinlega ekki náð því. Þess vegna ítreka ég það sem ég hef sagt, það sem við erum að gera sem er t.d. aðeins öðruvísi er að við erum að fara mjög vel yfir þátt skógræktar og landnotkunar.

ESB hefur þar aðrar reglur. Ég veit ekki hvort fyrrverandi umhverfisráðherra gerir sér grein fyrir því. Við erum að vinna að þessum málum, við viljum að skógrækt og landnotkun fái meiri sess en t.d. ESB leggur áherslu á eftir árið 2020. Við munum komast að því. Að sjálfsögðu þurfum við að eiga samstarf við önnur ríki, þó það nú væri. Ég verð bara að segja að jafnvel þó að við séum ekki í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og ykkar flokkur var í — (SSv: Geturðu svarað spurningunni?) Ég er að svara spurningunni. Átt þú að vera með inngrip hér? Ég held ekki. Eins og ég segi, við erum auðvitað alltaf að reyna að leggja (Gripið fram í.) okkar af mörkum í þessum málaflokki og það erum við einmitt að gera með þessum (Forseti hringir.) samningi.