145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég eins og aðrir þeir sem hafa tjáð sig í þessu máli um fullgildingu Parísarsamningsins varðandi loftslagsmál fagna auðvitað því að við Íslendingar séum að fara að undirrita formlega þessa samþykkt sem var gerð milli þjóða. Þetta er tímamótamál og löngu tímabært að þjóðir heimsins bindist samtökum og vinni að því að draga úr gróðurhúsaáhrifum og fullgildi þennan loftslagssamning.

Mig langar aðeins áður en ég fer að tala almennt um þessi mál að fara yfir þau. Parísarsamningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar ríkjanna sem þau hafa sjálfviljug sett fram með það að markmiði að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2° miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Þetta er metnaðarfullt markmið þó að menn hafi deilt svolítið um það hvar það ætti að liggja. Jafnframt skuli leita leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°. Samningurinn mun hafa áhrif á markmið Íslands í loftslagsmálum en hefur ekki að geyma bein ákvæði um tölulegar skuldbindingar einstakra ríkja.

Ég stoppa við þetta. Það er ekki verið að tala um að hvert ríki fyrir sig þurfi að skuldbinda sig með ákveðnum hætti varðandi tölulegar skuldbindingar. Þar finnst mér að Ísland eigi að sýna sem mestan metnað og vera í framvarðarsveit í loftslagsmálum. Við höfum svo mikla möguleika á því að vera fyrirmynd annarra þjóða í þeim efnum, búandi við þann mikla jarðhita sem við höfum og möguleika á orkuskiptum, bæði til sjós og lands, og möguleika á mörgu þar sem við höfum að stórum hluta ósnortna náttúru og getum dregið línuna, hvar við viljum virkja og hvar við viljum vernda, og hvernig við notum orku okkar sem við höfum virkjað og ætlum okkur að virkja, hvort við nýtum hana í þágu atvinnustarfsemi, grænnar atvinnustarfsemi, eða hvort við nýtum hana, eins og allt of mikið hefur verið gert af, í mengandi stóriðju sem í dag tekur um og yfir 80% af allri þeirri rafmagnsframleiðslu sem er í landinu. Er það mikið umhugsunarefni.

Ísland lagði fram áætlað framlag sitt í júní 2015 eftir samþykkt þess efnis í ríkisstjórn. Þar kemur fram að stefnt sé að því í samstarfi við aðildarríki Evrópusambandsins að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við útblástur árið 1990. Þetta er háleitt markmið. Ég tek undir það sem hefur komið fram, eins og hjá fyrri ræðumanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, að við Íslendingar þurfum að sýna fram á aðgerðaáætlun í þeim efnum. Þó að við horfum til þess hvað aðildarríki Evrópusambandsins ætla að gera er engin ástæða til að hengja sig á þá lest og sýna ekki frumkvæði heldur vera sú þjóð sem setur sér háleit markmið og dregur vagninn og er til fyrirmyndar. Það er oft sem lítil ríki geta verið sá aðili sem er í forsvari og er til fyrirmyndar, sem stóru iðnríkin í Evrópu geta horft til og unnið út frá, hvernig við nýtum orku okkar og annað því um líkt og hvaða metnað við höfum varðandi orkuskipti.

Hvað höfum við t.d. gert í orkuskiptum? Erum við nógu framsýn í þeim efnum? Ég tel svo ekki vera. Við höfum allt of mikið einblínt á að nýta orku okkar til stóriðju. Ef við horfum á mál sem eru nú undir í þinginu, eins og tollasamninginn við Evrópusambandið, búvörusamninginn og rammaáætlun, það mál sem kemur trúlega fyrir þingið á næstu dögum, niðurstaða verkefnastjórnar þriðja áfanga í þeim efnum, þá eru þetta allt mál sem með einum eða öðrum hætti snerta það hvernig við Íslendingar ætlum að haga okkar málum til að ná þeim markmiðum að binda kolefni og draga úr gróðurhúsaáhrifum og loftmengun. Hefur það verið ákveðið einhvers staðar eða ætla menn að gera það, meta áhrif t.d. tollasamningsins hvað varðar loftslagsmarkmið okkar og aðild að Parísarsamningnum? Við vitum að gífurleg mengun fylgir þeim mikla flutningi á matvælum til landsins sem annars væri með góðu móti hægt að framleiða innan lands. Við vinstri græn höfum lagt til að áhrif búvörusamningsins verði líka umhverfismetin og höfum náð því fram í vinnu atvinnuveganefndar að það verður gert á næstu þremur árum sem samningurinn fer í endurskoðun og skoðun starfshóps. Ég tel það vera góðan áfanga. Stóriðjustefnan sem rekin hefur verið almennt í landinu með harðri hendi fær falleinkunn þegar við horfum til þeirra markmiða sem eru undir Parísarsamningnum.

Ég tel að nú verði stjórnvöld algerlega að snúa við blaðinu og horfa til þess að við eigum að byggja upp grænt hagkerfi með sem sjálfbærustum hætti. Síðasta ríkisstjórn lagði fram metnaðarfullt plagg í þeim efnum sem núverandi ríkisstjórn ýtti út af borðinu og hefur ekki unnið með. Varðandi nýtingu og vernd náttúruauðlinda skiptir gífurlega miklu máli hvernig og hvar við nýtum og í hvað sú orka er ætluð. Þar þurfa að verða alger hamskipti frá því sem nú er ef ekki á illa að fara og við að falla á því prófi að undirgangast þau markmið sem hér er verið að fullgilda.

Við höfum svolítið dregið lappirnar í þessum málum öllum saman en það er gott að það er komið að okkur núna að undirrita þennan samning, formgera hann á Íslandi. Það er búið að fullgilda hann í Noregi fyrir þó nokkru síðan og í Kína á dögunum. Svo er það verkefni næsta umhverfisráðherra, eftir næstu kosningar, að vinna að því að koma með metnaðarfulla aðgerðaáætlun fyrir okkur Íslendinga til þess að vera sá aðili sem hefur mikinn metnað til þess að ganga til verka í þeim málaflokkum sem hér hafa verið nefndir, eins og orkuskipti og áhrif og umhverfismat almennt á allt það sem ríkið hefur og getur haft áhrif á og hið almenna efnahagsumhverfi í landinu og einstaklingar. Við höfum öll með einum eða öðrum hætti áhrif á loftmengun og gróðurhúsaloftmengun, hvort sem það er einstaklingur, fyrirtæki, ríki eða sveitarfélög. Þarna þurfa allir aðilar að leggja sitt af (Forseti hringir.) mörkum og draga ekkert undan, því að það skiptir komandi kynslóðir öllu máli að vel sé að málum staðið.