145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að fullgilding Parísarsamkomulagsins sé komin til staðfestingar á Alþingi Íslendinga. Utanríkisráðherra hefur þegar flutt hér greinargóða framsöguræðu þar sem farið er yfir það helsta sem máli skiptir varðandi Parísarsamninginn og ávinning af því að fullgilda hann snemma. Ég tek að sjálfsögðu undir ræðu hennar enda er það kappsmál umhverfis- og auðlindaráðherra að fullgilda samninginn sem og ríkisstjórnarinnar allrar. Ísland var í hópi ríkja sem vildu metnaðarfullan samning í París. Við vorum þar með mjög öfluga kynningu sem vakti athygli á ýmsum málum sem við höfum sett á oddinn í umræðunni um loftslagsmál, svo sem endurnýjanlega orku, landgræðslu og skógrækt og áhrif loftslagsbreytinga á hafið og jökla. Ég ætla ekki að endurtaka það sem fram kom í framsögu hæstv. utanríkisráðherra en vil þó fá að bæta við nokkrum atriðum, ekki síst um hvernig við getum tekist á við þær skuldbindingar sem er að finna í Parísarsamningnum.

Samningurinn markar sannarlega tímamót. Hann gefur okkur von um árangur í loftslagsmálum. Hann gefur okkur von um að umræður og viðræður milli þjóða um loftslagsmál séu komnar á betri veg því að þau mál voru komin í ákveðið öngstræti. Þróuð ríki sögðu að ekki gengi til lengdar að öflug og vaxandi þróunarríki eins og Kína, Indland, Brasilía og Kórea væru ekki skuldbundin til að draga úr losun. Þróunarríkin sögðu aftur á móti að rík lönd yrðu að vera í fararbroddi og að þar hefði skort á. Báðir aðilar höfðu nokkuð til síns máls. En í París tókst hins vegar að finna hina pólitísku sátt sem lengi hafði vantað. Hún er ekki fullkomin frekar en mörg önnur mannanna verk en hún er okkar helsta og ef til vill besta von og gefur okkur þess vegna tækifæri að verja kröftum okkar í að leysa vandann í stað þess að reyna að leita að sökudólgum.

Ísland gaf fyrirheit um sinn hluta innan Parísarsamningsins þar sem við stefnum að metnaðarfullu framlagi en, og ég segi en, það má ekki dyljast neinum að það verður vitaskuld töluvert átak að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram. Því verður ekki náð nema með átaki allra, þ.e. að allir komi þar að. Ég skynja að okkur hefur þegar orðið talsvert ágengt. Það hefur orðið vitundarvakning í þjóðfélaginu, hjá atvinnulífinu, sveitarfélögum, vísindamönnum, stofnunum og almenningi.

En styrkur sóknaráætlunarinnar, sem hér hefur verið rædd og mönnum er náttúrlega vel kunnugt um, er einmitt að virkja fleiri með okkur og að reyna að finna raunhæfar lausnir. Það er svipað og þegar maður hendir grjóti í sjó fram að við það myndast gárur. Það er nákvæmlega þannig að við setjum fram sóknaráætlun í 16 liðum en við viljum að það sé eins og steinninn sem varpað er í sjóinn, það eru gárurnar sem smita út frá sér, við viljum finna þann styrk og það held ég að sé að gerast.

Mig langar að nefna dæmi. Landgræðslumálin vöktu gríðarlega athygli í París. Það kom okkur eiginlega á óvart að það vekti mesta athygli hjá svo mörgum hvernig við stöndum að landgræðslu. Okkur var boðið að koma í viðtöl og annað á eftir. Eitt þeirra verkefna er endurheimt votlendis. Það er Landgræðslan sem sér um það og hefur unnið að nokkrum verkefnum. Með formlegum hætti tókum við fyrstu skóflustungurnar að endurheimt votlendis á Bessastöðum nú í sumar og var eitt af síðustu verkum síðasta forseta. En það var ekki bara þar. Ég frétti líka að biskup Íslands vildi fara af stað með slíkt átak í Skálholti og hefur eflaust gert það. Mér finnst það nokkuð skemmtilegt að það séu þessir staðir í okkar þjóðarsögu sem um er að ræða. Með því er verið að segja: Hér erum við með staði, sem ekki eru nýttir mikið undir hefðbundinn landbúnað, endurheimtum þar votlendi. Maður sér að þessar stofnanir, að bæði forsetaskrifstofan og biskupsstofa koma þarna að, sem og t.d. sveitarfélagið Garðabær sem er núna að vinna mjög skemmtileg verkefni. Það eru þegar komnar einar átta umsóknir af ríkisjörðum, ef ég skil það rétt.

Við erum að gera mjög margt. Bara síðast í fréttum í gær var sagt frá því að verið væri að hirða fræ af melgresi á svörtum Mýrdalssandinum. Þessi undrajurt, melgresið, hefur breytt miklu. Auðvitað bindur hún líka kolefni. Það er ekki bara skógurinn sem við viljum efla, landgræðslan hefur líka mikið að segja og getur bundið kolefni.

En hvað sem segja má hér, þótt mönnum finnist við ekki nógu sókndjörf í sóknaráætluninni er þetta samt fyrsta áætlun Íslands í loftslagsmálum sem byggir á verkefnum sem eru fjármögnuð sérstaklega til þess af stjórnvöldum. Og við ætlum að ná árangri. Vitaskuld þarf að kosta þar einhverju til en það ætlum við okkur að gera. Ég þarf svo sem ekki að nefna dæmi, þetta hefur verið rætt áður á hv. Alþingi, eins og varðandi orkuskipti og að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla og gera það myndarlega. Þegar hafa verið auglýstir styrkir til þeirra verka. Það er að sjálfsögðu borðleggjandi fyrir Íslendinga að vera þar fremstir í flokki til þess að nýta okkar loftslagsvæna og tiltölulega ódýra rafmagn í stað innflutts, mengandi eldsneytis. Við eigum ótal sóknarfæri.

Við erum að vinna og höfum verið að vinna að vegvísum fyrir loftslagsvænan sjávarútveg. Mér finnast sjávarútvegsfyrirtæki og bara atvinnugreinin í heild taka mjög vel við sér varðandi þessi mál. Það er sem sagt verið að vinna með greinunum sjálfum, bæði sjávarútvegi og landbúnaði. Þar er fólk innan dyra sem býr yfir þekkingu og kemur með loftslagsvænar lausnir.

Enn og aftur: Styrkur þessa verkefna er einmitt að virkja fleiri til verka.

Það hefur náttúrlega komið fram í ræðum í dag hjá hæstv. utanríkisráðherra að við erum að auka fé til skógræktar. Við eigum mikið af landi. Það er það sem við höfum umfram mörg önnur Evrópulönd að við eigum land sem við getum nýtt til skógræktar og aukinnar landgræðslu. Í því felst mikil auðlegð. Það er skiljanlegt að við séum ekki komin lengra varðandi sýnileika þótt sett hafi aukið fé í skógrækt því að það tekur sinn tíma að búa til tré úr fræi til gróðursetningar. En allt er þetta að koma og innan tíðar munum við sjá það gerast. Það viljum við stórefla.

Barátta gegn matarsóun er eitt af verkefnunum sem allir geta tekið þátt í. Það verkefni nokkuð táknrænt fyrir baráttuna gegn loftslagsbreytingum og fyrir umhverfisvernd að sóun á mat veldur óþarfaframleiðslu, óþarfaflutningum og óþarfamyndun úrgangs. Allt eru það mál sem tvinnast saman varðandi loftslagsmál og umhverfismál almennt. Það er gaman að segja frá því að núna næstkomandi föstudag verður vegleg kynning og ráðstefna í Perlunni, Saman gegn sóun, sem nokkur fyrirtæki standa að. Fenúr á mestan heiður af ráðstefnunni, en jafnframt koma Kvenfélagasamband Íslands og frjáls félagasamtök að henni. Mér finnst gaman að vekja athygli á því að það er ekki bara ríkið sem á að gera allt. Það er ríkið sem á að vera í fararbroddi, koma kannski með hugmyndir, en síðan er það umhverfið sjálft sem tekur við sér, meðal annars varðandi þetta verkefni, sem mér finnst skemmtilegt. Maður sér að fólk er farið að hugsa um að við þurfum eitthvað að gera til að sporna gegn matarsóun.

Ég veit ekki hversu mikið ég á að vera tala hér um sóknaráætlunina en Veðurstofa Íslands er öflugt fyrirtæki og hefur tekið að sér að kortleggja og vera með vöktun. Ef við kortleggjum og vöktum umhverfið sjáum við breytingar sem verða frá einu ári til annars. Það er líka nauðsynlegur þáttur. Ráðinn hefur verið sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að hanna sérstaklega sóknaráætlunina. (Forseti hringir.) Ég tel það mjög jákvætt að við höfum getað fengið fjármagn til baráttumála okkar í loftslagsmálum. Ég skynja jákvæða umræðu hér á Alþingi um Parísarsamninginn og álít að þetta sé ánægjulegur dagur.