145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru skemmtilegar umræður. Sannarlega hverf ég úr starfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis með söknuð í brjósti því að mér finnst sá málaflokkur afskaplega ögrandi en jafnframt gefandi. Ég er alveg sannfærð um að vægi hans mun vaxa í framtíðinni. Þar eru gríðarlega mörg verkefni. Það er oft þannig með hegðun okkar, og ég hef lært sjálf að skilgreina mína eigin hegðun enn frekar við það að komast í þetta embætti, að það er svo margt sem við gerum sem getur orðið til þess að laga til í umhverfismálum og loftslagsmálum þar með, ég hef sagt t.d. með því að draga úr matarsóun, með því að draga úr flutningum. Ég get alveg tekið undir með þingmanninum að það gæti verið æskilegt að setja þetta markmið fram, 2050. Mér er alltaf svolítið illa við að beita bönnum, mig langar frekar að sjá þetta gert með fræðslu og kannski ljúfari aðferðum en beinum bönnum eða annað. En maður verður að vita hvert maður stefnir, það er rétt. Ég get alveg tekið undir með henni að þetta væri æskileg áskorun, að stefna að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2050.