145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög áhugaverðar umræður, þykir mér, í dag. Ég verð að taka undir með öðrum þingmanni sem talaði áðan og sagði að það væri eiginlega alveg með ólíkindum að þetta tiltekna mál, loftslagsbreytingar og afleiðingar sem við stöndum frammi fyrir, fengi ekki meira rými í hinum almennu umræðum. Þetta er klárlega eitt stærsta málið. Það er ekki mjög sexí að ræða þetta, ég held að það sé alveg ljóst, málið virðist alla vega ekki ná eyrum fjölmiðla og það virðist ekki vera hægt að setja það fram í æsandi fyrirsögnum eða einhverju sem grípur þjóðina þannig að hún horfi inn á við og fólki hugsi með sér: Hvað get ég gert til að breyta hegðun minni eða lífsstíl?

Talað hefur verið um umferð og annað slíkt og að það ætti ekki að þurfa að taka svona langan tíma á höfuðborgarsvæðinu að komast á milli staða og raunin er. Ég er nokkuð viss um að miðað við höfðatölu sláum við öll met í notkun einkabílsins. Einhvern veginn gengur okkur verr en oft áður að komast út úr því. Mér finnst umferðin vera að aukast, sem er að hluta til vegna ferðamennskunnar. En það er ekki bara það, íbúarnir ferðast miklu meira á einkabílum. Ég er ekki undanskilin því. Ég bý á litlum stað úti á landi og stundum hugsa ég þegar ég sest upp í bílinn: Af hverju geng ég ekki? Af hverju tek ég ekki reiðhjólið mitt fram? Af hverju í ósköpunum er ég að setjast upp í bíl? Ég er u.þ.b. tveimur mínútum lengur á áfangastað. En við erum ekkert nema vaninn, það er nú það sem er. Þess vegna segi ég að við þurfum hvert og eitt að líta í eigin barm. Það er spurning hvað hægt er að gera til þess að vekja hvata í mannskepnunni til að breyta.

Þau heimsmarkmið sem eru undir, sem tóku við af þúsaldarmarkmiðunum, og eru 17, snúa að aukinni sjálfbærni, því að reyna að koma í veg fyrir hungur og fátækt, auka jöfnuð og stuðla að jafnrétti kynjanna, bæta og tryggja aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu, gera borgir vistvænni, sporna við loftslagsbreytingum og vernda lífríki hafsins og skóga. Þetta eru markmiðin sem eru undir og á annað hundrað ríkja hafa samþykkt að vinna að þeim og reyna að ná þeim fyrir 2030. Það var talað um vímuefnalaust Íslands fyrir ekki svo mörgum árum. Maður hugsar hvort þetta séu óraunhæf markmið eða hvort við getum nálgast þau eitthvað. Þetta snýst svo mikið um viðskiptahagsmuni. Ég held að það sem hafi komið í veg fyrir að framþróunina hafi orðið meiri sé að það eru viðskiptahagsmunir í húfi.

Forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, Mogens Lykketoft, hefur sagt að helstu áhyggjur hans snúi að ríku þjóðunum, að þær taki markmiðin ekki nógu alvarlega, en þróunarríkin reyni hins vega hvað þau geta. Hann vekur um leið athygli á því að þetta snýst ekki aðeins um fátæka fólkið í fátæku ríkjunum heldur um okkur öll, alls staðar í heiminum. Hann bendir á nokkur atriði sem þróuðu þjóðirnar geti beitt sér fyrir í tengslum við sjálfbæra þróun sem snúa þá að aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, aðgerðum gegn skattaskjólum og svo hækkun á framlögum til opinberrar þróunaraðstoðar. Þetta er eitt af þeim atriðum þar sem við sýnum minni ábyrgð, hinar þróuðu þjóðir, en hinar sem eru þær þjóðir sem eru í neyð. Neyðin er miklu fjær okkur en mörgum öðrum þjóðum.

Ef við náum ekki að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda eykst magn þeirra. Þá stöndum við áfram frammi fyrir þeirri hlýnun sem við höfum orðið svo áþreifanlega vör við. Það vorar fyrr, oftast alla vega. Við sjáum fugla koma til landsins sem við höfum ekki séð áður. Varptíminn er jafnvel að breytast og gróðurtíminn að lengjast. Ef við horfum í kringum okkur sjáum við að ótrúlega margt hefur breyst.

Þegar horft er til þess hvernig þetta getur þróast á komandi öld er talið að álagið á vistkerfið verði miklu meira en hægt verður að ráða við. Nefnt hefur verið að sjórinn verði súrari, sem hefur áhrif á lífríkið í kringum okkur, og talið er að upptaka hins náttúrlega kolefnis muni ná hámarki um miðja öldina, sem svo aftur magnar loftslagsbreytingarnar.

Eins og ég sagði eru fátæku samfélögin sérstaklega viðkvæm gagnvart þessum breytingum og möguleikar þeirra til að bregðast við eða aðlaga sig að þeim eru gjarnan minni. Það er hætta á því að í framhaldi af öllu því sem nú er að gerast í heiminum og ekki þykir gott komi enn meiri hitabylgjur, fárviðri, þurrkar, flóð, vannæring og ýmislegt annað sem fylgir því öllu saman. Þetta er ekki mál sem við eigum að segja að geti beðið, því að það getur svo sannarlega ekki beðið.

Ég held að hlutverk okkar, eins og hefur verið rakið, til að draga úr þessu sé margvíslegt, hvort sem það felur í sér að horfa inn á við eða á hið stóra samhengi. Við erum glöð og ánægð með gríðarlega vaxandi ferðamannastraum en um leið stöndum við frammi fyrir menguninni af skemmtiferðaskipunum, frá fluginu, sem eykur álagið enn meira.

Ég tek undir að við þurfum að efla almenningssamgöngur. Það er eitt af því sem okkar litla Íslandi hefur ekki gengið nægjanlega vel í. Miðað við umferðarþungann á götunum virðist ekki vera hægt að ná því saman svo vel sé, þannig að fólk sjái hag sinn í því að nýta almenningssamgöngur.

Ég tek undir það sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði áðan um grænu ökutækin, afslátt og annað slíkt. Ég held að við ættum í alvörunni að skoða það vel.

Við höfum séð einn ágætisáfanga í ferðamennskunni sem er fólginn í rafmagnsknúnum skipum eða bátum við hvalaskoðunina á Húsavík. Það er tilraun til að stemma stigu við mengun og gera upplifunina um leið meiri. En auðvitað snýr þetta að mörgum þáttum. Þetta snýr líka að endurheimt votlendis og skógræktinni og öðru slíku. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu fyrst og síðast, hvert og eitt, af því að við erum öll bitar í þessu púsluspili. Í staðinn fyrir að vísa því yfir á einhverja aðra þurfum við að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert. Hér var nefnd matarsóun og ýmislegt fleira. Allt telur, stórt sem smátt skiptir máli. En fyrst og fremst þurfum við að draga úr losuninni til þess að raunverulegt markmið náist. Ég vona að þjóðir heims fullgildi allar þennan samning og láti ekki viðskiptin þvælast fyrir því svo að ógninni verði ekki velt yfir á komandi kynslóðir.