145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög góður dagur í dag. Sérstaklega ánægjulegt að vera hér og hafa mælt fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamkomulagsins. Það er von mín að við á Íslandi náum að fullgilda samninginn sem fyrst.

Það vill svo til að við Íslendingar erum í mjög góðri stöðu. Rafmagn okkar og hiti eru þegar að uppruna í nær 100% endurnýjanlegri orku. Þetta kallar á að við þurfum að snúa okkur að öðrum þáttum sem minnka losun. Þá nefni ég til að mynda samgöngugeirann. Við getum lagt meira af mörkum. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa rætt hér í dag að við þurfum að halda áfram að þróa okkar áætlun.

Það kemur margt fram í sóknaráætlun stjórnvalda sem var samþykkt í aðdraganda Parísarfundarins. Mig langar aðeins að tilgreina nokkur verkefni þar og þau sem hafa verið fjármögnuð nú þegar. Til að mynda, eins og ég nefndi í framsögu minni, til skógræktar, landgræðslu, endurheimtar votlendis og aðgerðir er lúta að innviðum fyrir rafbíla og samvinnu við sjávarútveg og landbúnað um minnkun losunar, fyrir utan þær aðgerðir á alþjóðavettvangi sem lúta að framlögum í Græna loftslagssjóðinn og forustu alþjóðlegs átaks um nýtingu jarðhita.

Ég vil einnig minna á að nú hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra nýlega lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem kveður á um ýmis töluleg markmið, t.d. að hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir samgöngur á landi verði komið í 30% árið 2030 og haftengd starfsemi í 10%. Þarna erum við að tala um umtalsverðar breytingar á þeim málaflokki.

Ísland var í hópi metnaðarfyllstu ríkja við gerð samningsins og vildi gera metnaðarfullan bindandi samning. Eins og ég hef sagt áður tek ég heils hugar undir með þeim þingmönnum sem hafa talað hér í dag og leggja mikla áherslu á að við förum fram með þetta mál, samþykkjum það og vinnum enn frekar í áætlunum tengdum því.

Mér finnst einnig mikilvægt að við náum að samþætta umhverfisstefnu þvert á ráðuneyti og þvert á atvinnugreinar. Og líka annað, til að raunveruleg vitundarvakning verði í umhverfismálum byrjar þetta líka með uppeldi á börnum okkar. Ég horfi sérstaklega til þess að það eru margir grunnskólar í Reykjavík sem hafa þann metnað að öðlast Grænfánann. Út á hvað gengur það? Jú, að kenna börnum að bera mikla virðingu fyrir umhverfinu í sínum gjörðum og háttalagi. Er það mjög lofsvert.

Að lokum vil ég segja: Þetta er fagnaðardagur. Það er gaman að koma hingað og mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu og ég ítreka að ég vona að við náum að fullgilda samninginn sem fyrst.