145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:46]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nánast allir lífeyrisþegar fá svokallaðar tekjutengdar greiðslur sem eru með einhverjar aðrar greiðslur. Okkar útreikningar sýna að frumvarpið mun koma sérstaklega til móts við þá sem eru með lægri tekjur í núverandi kerfi og hafa þurft að treysta meira á almannatryggingakerfið.

Komið hafa fram athugasemdir, sem þingmenn hafa fengið, frá hagsmunasamtökum eldri borgara, ekki heildarsamtökunum heldur einstökum aðildarfélögum sem gert hafa athugasemdir við að ákveðnir hópar muni koma verr út, en það eru þeir sem eru með hæstu tekjurnar í kerfinu. Við erum að auka stuðninginn við þá sem eru með minni eða litlar aðrar tekjur, en drögum á móti úr stuðningnum við þá sem eru með hærri tekjur. Hv. þingmaður hefur kynnt sér töfluna á bls. 31 og 32, en þar sést eins og varðandi lífeyrissjóðstekjurnar að þeir sem eru t.d. komnir með 400 þús. kr. eða hærra koma verr út í nýju kerfi. Það er áætlað þegar maður er kominn með í kringum 450, 500 þús. kr. á mánuði detti hann algjörlega út úr kerfinu. Við erum þá sem sagt að segja, ef Alþingi samþykkir þetta, að þegar einstaklingur er kominn með þetta háar tekjur mun hann ekki lengur fá stuðning úr almannatryggingakerfinu. En á móti getum við aukið stuðning gagnvart þeim sem eru með minna á milli handanna.

Það endurspeglast líka mjög skýrt þegar við horfðum á kynjamatið. Meginhluti þeirra peninga sem fara í kerfið nýtast þá sérstaklega konum sem verið hafa í hlutastörfum eða jafnvel hafa farið seint inn á vinnumarkaðinn og eiga þar af leiðandi takmörkuð lífeyrisréttindi. Sama gildir gagnvart körlum.

Varðandi hins vegar spurninguna um atvinnutekjurnar lagði ég áherslu á að nefndin mundi skoða sérstaklega það ákvæði sem kemur í staðinn og snýr að hálfum lífeyri, þ.e. að geta trappað (Forseti hringir.) sig niður. Það er nýtt, það hefur ekki áður verið í kerfinu og ég held að það muni nýtast lífeyrisþegum mun betur en núverandi fyrirkomulag.