145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

Parísarsamningurinn.

[10:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hafin sé einhver vinna og ég vonast til að sjá ítarlega langtímaáætlun varðandi þessi mál. Það er alveg ljóst að við getum ekki horft fram hjá þeirri vá sem að steðjar út af hlýnun jarðar. Við sjáum þess merki á hverjum degi að við erum næstum því að missa af tækifærinu til að gera eitthvað. Við erum í tímaþröng og þess vegna er mjög brýnt, og ég vil brýna fyrir hæstv. ráðherra og öllum þingheimi, að láta loftslagsmálin verða lifandi í umræðunni því að það er of lítið rætt um þessi mál og við þurfum að finna sameiginlega lausnir. Ég tel það mjög brýnt og vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort ekki þurfi að eiga sér stað meiri þverpólitísk vinna um langtímaáætlun til þess að bregðast við þeirri vá sem við stöndum fyrir sem mannkyn.