145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

[10:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að fari vel á því að vinna næsta þátt, verkþáttinn. Það þarf auðvitað að rýna aðeins í kostnaðaráætlunina, fara yfir hana, þetta voru fyrstu drög sem við fengum. Þegar sú lýsing liggur fyrir er um leið auðveldara fyrir okkur að gera okkur grein fyrir áætluðum kostnaði. Talan milljarður hefur verið nefnd en ég hef það reyndar á tilfinningunni að þetta geti orðið dýrara. Að vísu geta tæknibreytingar og þróun úti í heimi leitt til þess að það gæti þess vegna orðið ódýrara, það er mjög erfitt að segja nákvæmlega til um kostnaðinn. En ég tel að það fari ágætlega á því sem hv. þingmaður stingur upp á að á næsta þingi, þegar þessi vinna liggur fyrir og á grundvelli hennar, sé Alþingi í þeirri stöðu að samþykkja t.d. með þingsályktun hvernig haldið verði á í framhaldinu. En ég legg eindregið til að það verði ekki bara Alþingi eða ríkið sem standi að verkinu heldur verði það unnið í samstarfi við atvinnulífið vegna þess að atvinnulífið sjálft hefur sýnt því mikinn áhuga. (Forseti hringir.) Menn átta sig á mikilvægi þess að þetta verkefni verði leyst og atvinnulífið vill (Forseti hringir.) koma að því með fjármunum og síðan auðvitað samstarfi vegna tækniþáttarins o.s.frv.