145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

sektir í fíkniefnamálum.

[10:53]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nefnd á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til þess að draga úr skaðlegum áhrifum fíkniefna hefur skilað af sér skýrslu og hefur hæstv. ráðherra lagt hana inn í þingið til frekari vinnslu. Formaður nefndarinnar, Borgar Þór Einarsson, sagði við útkomu skýrslunnar að þar væri að finna verulega afstöðubreytingu í fíkniefnamálum og hefur hæstv. ráðherra tekið í sama streng. Helsta tillagan er sú að leggja til að fangelsa ekki fyrir það að bera á sér neysluskammta fíkniefna heldur sekta frekar fyrir athæfið, eins og hefur reyndar verið gert. Mikilvægt er að taka fram að það hefur auðvitað ekki verið viðhaft að henda fólki í fangelsi fyrir það eitt og sér að bera á sér neysluskammta, það veit starfshópurinn og það veit auðvitað hæstv. ráðherra. En í skýrslunni er lagt til að lögum verði breytt svo þau verði í takt við það hvernig þeim hefur verið framfylgt hingað til. Því er ekki um að ræða neina afstöðubreytingu nema kannski að lögð er meiri áhersla á sektirnar. En vel að merkja á ekki að sekta fólk eins og mig sem velur sér áfengi sem sinn vímugjafa, bara hina sem velja sér önnur vímuefni og bera þau á sér.

Þá er mikið talað um skaðaminnkun í tillögunum en það gleymist alveg að gera grein fyrir því hvernig sektir á fíkiniefnaneytendur fara með hugmyndum um skaðaminnkun og fyrir þeirri hugmyndafræði að aðstoða eigi fíkla við að komast úr heimi fíknar. Ég beini því þess vegna til ráðherra að upplýsa okkur um það hér hvernig þetta tvennt fari saman í hans huga. Hvernig sektar maður fólk út úr fíkn? Ég fer auðvitað ekki leynt með og veit það að þetta tvennt fer ekki saman, maður refsar ekki til bættrar hegðunar, það segja okkur öll lögmál í sálfræði og atferlisfræði. (Forseti hringir.) Í öðru lagi hjálpar það ekki jaðarsettum hópum eins og fíkniefnaneytendum (Forseti hringir.) að seilst sé í vasa þeirra og tekinn af þeim peningur. En mér þætti gaman að heyra hvernig ráðherra sér þetta fyrir sér.