145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

sektir í fíkniefnamálum.

[10:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en ítreka það sem ég hef áður sagt opinberlega að ég hef beðið eftir því að skýrslan kæmi til umræðu í þinginu. Þar er um að ræða niðurstöðu starfshóps sem skipaður var á grundvelli þingsályktunartillögu þar sem mér var falið að setja þessa vinnu í gang. Ég fékk þetta í hendur nú í haust og var svo tilkynnt að skýrslan væri komin fram þegar hún var lögð inn í þingið. Ég bíð sem sagt eftir umræðu í þinginu um tillögurnar sem þarna komu fram, þær eru 12 ef ég man rétt, áður en einhver afstaða er tekin. Ég er að skila af mér verki og skal glaður taka þá umræðu við hv. þingmann sem og aðra hér þegar að þeirri umræðu kemur.

Ég vonast eftir því að sú umræða geti farið fram sem fyrst því að við höfum beðið tiltölulega lengi eftir afrakstri þeirrar vinnu sem dreginn er saman í skýrslunni. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að sumt í skýrslunni er ekki beinlínis neitt nýnæmi að öðru leyti en því að staðfesta eins og í þessu tilfelli ákveðna lagaframkvæmd, og það kallar á lagabreytingu.

Ég vil þó nefna önnur atriði sem eru mjög góð að mínu mati, sem eru ábendingarnar um skaðaminnkunina. Mér finnst líka mjög gott mál sem lýtur að breytingum á mælingum á fíkniefnum í blóði o.fl. Sömuleiðis eru atriði sem lúta því að taka minni háttar brot út af sakaskrá o.s.frv. Það er eitt og annað gott í þessu. Vissulega verður sumt af þessu umdeilt, en til að svara spurningunni sem hv. þingmaður kemur fram með tel ég það ekki neina lausn að reyna að sekta (Forseti hringir.) fólk út úr fíkn. Ég held að það sé enginn, hvorki í starfshópnum né hér inni (Forseti hringir.) sem telur að það sé einhver lausn í málefnum fíknar.