145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

LÍN-frumvarpið og jafnrétti til náms.

[11:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er greinilega í mikilli vörn og bunar yfir mig spurningum um fyrrverandi menntamálaráðherra og frumvarp hans. Það væri betra ef það frumvarp lægi undir og við vonumst til að bragarbót verði á því þegar nýr menntamálaráðherra kemur á næsta kjörtímabili og leggur fram almennilegt frumvarp sem gagnast því fólki sem þarf á því að halda að fá lán en það sé ekki verið að smyrja yfir styrk til þeirra sem búa í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu, þurfa ekkert á því að halda að fá neinn vasapening, og eyða peningunum þannig í stað þess að nýta þá fyrir þá sem þurfa á þeim að halda.

Við eigum að sýna þann metnað í þessu þjóðfélagi að það sé jöfn aðstaða til náms burt séð frá kyni, aldri, tekjum og aðstöðu. Með þessu frumvarpi er verið að sveigja af þeirri braut og enn og aftur verið að moka undir þá efnameiri og koma í veg fyrir að fólk sem er í jaðarhópum (Forseti hringir.) og hefur ekki eins mikið aðgengi að námi, geti (Forseti hringir.) sótt sér nám. Það er stórhættulegt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í framboði í prófkjörum (Forseti hringir.) hafa predikað jafnrétti til náms. (Forseti hringir.) Þeir ættu að skoða þetta frumvarp menntamálaráðherra.