145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:09]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með að okkur hæstv. ráðherra hafi tekist að koma þessari umræðu að. Mér finnst byggðamál gríðarlega stór og mikilvægur málaflokkur sem er allt of lítið ræddur á Alþingi.

Mér finnst líka sú byggðastefna sem er í gildi hverju sinni fá mjög lítið vægi í umræðunni og almennt held ég að fólk viti ekkert mikið um hvað byggðaáætlanir snúast. Sú síðasta var samþykkt á þessu þingi og gildir frá 2014–2017, sem er í rauninni allt of stuttur tími fyrir svona mikilvæga áætlun. Fæst af því sem nefnt er í þeirri áætlun og þegar hefur verið samþykkt hefur komið til framkvæmda. Það átti kannski allt að gerast á næsta ári.

Spurningin sem mér finnst mjög aðkallandi er: Hvernig tryggjum við að aðrir búsetukostir en hér á höfuðborgarsvæðinu séu yfir höfuð eftirsóknarverðir? Hvað þarf til? Ég held að við sem þjóð séum flest meira og minna sammála því að við viljum viðhalda byggð á landsbyggðinni. Við viljum öfluga landsbyggð og við viljum auðvitað líka sterka höfuðborg.

En maður veltir fyrir sér hvort sú stefna að hlutirnir þróist bara einhvern veginn, án þess að nokkur sé með puttana í því, hafi ekki reynst illa. Við heyrum oft viðhorfið að það sé eðlilegt að allt sem sé þokkalega mikilvægt sé staðsett þar sem stærsti hluti þjóðarinnar býr. Þetta er ríkjandi viðhorf en það viðheldur í raun þeirri þróun að flestir sæki suður. Hver vill ekki búa þar sem þjónustan er best, störfin fjölbreyttust, besta aðgengið að menntun, menningarlífið fjölbreyttast? Án þess að hafa reiknað það út nákvæmlega get ég ímyndað mér að bara það fjármagn sem við höfum sett í Hörpu frá því að hún var byggð sé meira en allt fjármagn sem sett hefur verið í menningarmál á landsbyggðinni frá örófi alda. Ég væri til í að setjast niður og reikna það út.

Mér finnst þegar kemur að menningarmálum að landsbyggðin verði sérstaklega út undan. Ég er ekki að segja að ég sjái eftir peningum sem settir eru í menningarmál á höfuðborgarsvæðinu, en ein forsenda þess að fólk vilji búa einhvers staðar er aðgangur að ekki bara grunnþjónustu heldur líka að menningu. Þetta finnst mér vera mikilvægt.

Við þekkjum það í rauninni að auður safnast á fárra hendur ef ekkert er að gert, þess vegna erum við með skattkerfi sem miðar að því að breyta þessu. Það sama á í rauninni við þegar fólk hverfur frá byggðarlögum sem því finnst og upplifir að hafi setið einhvern veginn eftir. Við sjáum að byggðastefna Evrópusambandsins og nágrannalandanna er einmitt sú að fara þurfi í markvissar aðgerðir til að hafa áhrif á það hvernig byggðir þróast. Mér finnst það vera rétt leið. Við getum ekki látið þessa hluti einhvern veginn bara gerast af sjálfu sér. Það gengur ekki.

Við á Íslandi höfum líka tekið meðvitaðar ákvarðanir í gegnum tíðina. Sumar hverjar sem miða að því að gera höfuðborgarsvæðið sterkara. Þá get ég nefnt, eins og ég heyrði í fyrirlestrum sem ég hafði gaman af, það má fara svo langt aftur til 1750 og nefna til sögunnar innréttingar Skúla fógeta sem danski kóngurinn styrkti mjög mikið einmitt vegna þess að á þeim tíma var Reykjavík kalt svæði, brothætt byggð, og þess vegna var farið í mikið átak í atvinnusköpun. Stundum þarf að gera það.

Auðvitað höfum verið með ýmsar ívilnanir og verkefni úti á landi en kannski svolítið einhæf eða sem miðað hafa kannski að stóriðju, sem hefur ekki endilega alltaf reynst vel.

Ef við ætlum að styrkja byggð utan höfuðborgarsvæðisins þurfum við að fara í, að mínu mati, miklu markvissari aðgerðir þar sem við höfum í rauninni farið í ómarkvissar aðgerðir. Við höfum ekki skilgreint almennilega hver markmiðin eru, hvers vegna farið er í þessa aðgerð en ekki einhverja aðra. Þessar aðgerðir eru ekki endilega hluti af einhverju plani, heldur virka þær tilviljanakenndar og eru oft tilviljanakenndar. Það veldur því líka í rauninni, getum við sagt, að þær verða umdeildar. Að mínu mati ættum við að vera með 10 til 20 ára plan í byggðamálum, má alveg vera agressíft plan eins og við sjáum hjá Norðurlandaþjóðunum til dæmis. Ég held að mjög mikilvægt sé að þverpólitísk samstaða sé um slíkt plan, og ég held að flokkarnir séu sammála að miklu leyti.

Byggðamálin eru eitthvað sem getur farið þvert á flokka. Þegar við erum með plan og erum búin að ákveða að við ætlum að fara í slíkar aðgerðir þá er miklu líklegra að það takist og þær valdi ekki úlfúð, eins og ég leyfi mér að nefna (Forseti hringir.) um flutning Fiskistofu. Ég er sammála þeirri aðgerð, en hvernig hún var unnin (Forseti hringir.) var algjörlega út úr kortinu. Það hefði verið betra ef við hefðum séð það fyrir (Forseti hringir.) að við ætluðum að flytja þá stofnun á einhverjum (Forseti hringir.) tímapunkti út á land, og við ætlum að gera (Forseti hringir.) það svona.

Ég vil gjarnan heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta að segja og kem inn á önnur mál í seinni ræðu.