145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:23]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það gladdi mig að heyra það sem kom fram hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að verið er að vinna stefnu til framtíðar, til sjö ára, hjá Byggðastofnun um byggðastefnu á landinu. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að taka undir það sem hefur komið fram. m.a. hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að það er ekki í lagi með byggðastefnu úti um landið. Það er mjög nauðsynlegt ef við ætlum að halda byggð um land allt að það sé fastmótuð stefna með tímasetningum sem er fylgt eftir.

Þegar ég horfi til þeirra sem búa m.a. austur á landi, á norðausturhorninu og á Vestfjörðum er ýmislegt að og margt sem betur má fara. Vegakerfið er m.a. með þeim hætti á norðausturhorninu að vegirnir eru hreint og klárt ónýtir víða og fólk skemmir bílana sína með því að reyna að fara þar um. Það sem er meginatriði í byggðastefnu er að mótuð sé stefna í atvinnumálum, í samgöngumálum, í fjarskiptamálum, í menntamálum, í þjónustu og afþreyingu. Allt þetta gerir eitt land að byggilegu svæði. Það er ekki nóg að vera með höfuðborg þar sem allt er til staðar vegna þess að þegar dregur saman á landsbyggðinni og byggðin færist nær og nær kjarnanum veikist hún. Það er mikilvægt að við séum með byggð um allt land.