145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa mikilvægu umræðu. Sterkari byggðir um land allt þýða sterkara Ísland. Þess vegna skiptir máli að við hættum öllu dútli þegar kemur að byggðamálum vegna þess að við þurfum núna fyrst og fremst skýra sýn og alvöruaðgerðir, stórar alvöruaðgerðir. Þegar ég tala um stórar alvöruaðgerðir á ég ekki síst við samgöngumálin, vegna þess að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa þau verið í algjörum ólestri. Í sögulegu samhengi hafa framlög til samgöngumála aldrei verið jafn lág og akkúrat núna. Á sama tíma horfum við á vaxandi ferðaþjónustu. Við erum með eitt ráðuneyti sem segir að við þurfum að dreifa ferðamönnum betur um landið og við erum með annað ráðuneyti sem dregur lappirnar í því að byggja upp samgöngkerfið þannig að við getum staðið undir þessum markmiðum. Ég get tekið dæmi um Dettifossveg sem er kjörið tækifæri til að styrkja ákveðið svæði í ferðaþjónustu og ná heildarmarkmiðunum fyrir landið allt sem er að dreifa ferðamönnunum betur, en menn draga alltaf lappirnar.

Samgöngumálin eru það stór hluti af okkar byggðastefnu að það er að mínu mati algjörlega óásættanlegt að hér hafi ekki ein einasta samgönguáætlun farið í gegn á þessu þingi.

Og enn draga stjórnarflokkarnir lappirnar. Við buðum þeim að taka út samgönguáætlun í júní en því var hafnað. Hér voru greidd atkvæði gegn því. Svona eru efndirnar, svona eru gjörðirnar. Þetta er það sem menn eru að gera. Síðan segja þeir alls konar fallega hluti en þeir gera ekki neitt. Samgöngumálin eru lykillinn að því að fólk geti notið alls þess sem hér er rætt um, notið menningar, haft stærra upptökusvæði, ef svo má segja, fyrir líf sitt og notið þeirra lífsins lystisemda sem svæðin hafa upp á að bjóða og jafnframt skapar þetta (Forseti hringir.) atvinnutækifæri. Við sjáum það t.d. á Siglufirði og í Ólafsfirði hvílík innspýting Héðinsfjarðargöng hafa verið þar. Þetta eru aðgerðir sem við verðum að fara að horfa til en þar dregur þessi ríkisstjórn algerlega lappirnar.