145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

byggðamál.

[11:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er alltaf gott að taka umræðu um byggðamálin, en ég verð að viðurkenna, þar sem ég bý úti á landi og hef tekið þátt í þessari umræðu mjög oft, að maður er orðinn svolítið langþreyttur þegar haldið er áfram að vísa í stefnumótun og skýrslur. Við eigum mörg hundruð kíló af skýrslum og stefnumótun upp á fjölda kílómetra sem hægt væri að nota, svo það er ekki það sem við þurfum á að halda. Við þurfum á fjármunum að halda og raunverulegum aðgerðum. Það er alveg ömurlegt að alltaf þurfi að berjast fyrir hverri einustu krónu og halda í það sem fyrir er á landsbyggðinni. Þessi ríkisstjórn ætti að líta í eigin barm hvað það varðar, dregið hefur verið úr fjárveitingum í samgöngum svo tekið er eftir og skorið hefur verið niður til litlu háskólanna, aðför hefur verið gerð að menntun í landinu, 25 ára og eldri geta ekki sótt framhaldsskóla sem skyldi úti á landi. Heilbrigðiskerfið hefur verið skert og það felur í sér mikinn kostnað fyrir landsbyggðarfólk að sækja heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið.

Póstþjónusta hefur dregist saman, ríkisbankinn skellir útibúum í lás vítt og breitt um landið og þannig mætti áfram telja. Við skulum bara horfa á hlutina eins og þeir eru að gerast fyrir framan augun á okkur en ekki alltaf vera að mæra einhverjar stefnur út og suður og segja að þetta sé allt að koma. Það þarf aðgerðir og það þarf alvöruríkisstjórn sem ætlar að vinna með fólki og fyrirtækjum úti á landi, en ekki líta á það sem ölmusu og henda einhverju hænsnafóðri í fólk þegar mönnum hentar. Það er ekki þannig. Tækifærin liggja úti á landi og við þurfum að vinna með því fólki sem vinnur vel að nýsköpun, menntun og hefur miklar hugmyndir bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Þannig þarf að hugsa en ekki bara að vinna að því að samræma þetta og samræma hitt, þetta liggur allt fyrir ef menn skoða það sem fyrirrennarar (Forseti hringir.) þeirra hafa gert í gegnum árin. Við skulum líka horfa til þess að það er mikil list- og menningarsköpun úti á landi. Hana skortir ekki, en það skortir jafnrétti úti á landi gagnvart höfuðborgarsvæðinu í heild.