145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[11:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég árétta að þeir sem standa að þessu nefndaráliti eru ekki undir nokkrum kringumstæðum að segja já við staðgöngumæðrun. Velferðarnefnd hefur lagt fram sérstaka bókun vegna þess frumvarps sem er hjá velferðarnefnd og þingsályktunartillaga fól ráðherra að koma með frumvarp sem heimilaði staðgöngumæðrun. Í ljósi þeirra umsagna sem þar hafa borist, sem eru margar, flóknar og viðamiklar, treystir nefndin sér ekki til að afgreiða það frumvarp vegna þess að það felur í sér svo margar siðferðislegar og áleitnar spurningar og ákveður því að leggja málið til hliðar. Það er ekki ákveðið að leggja það fram. En með þessu frumvarpi hér er ekki undir nokkrum kringumstæðum verið að samþykkja staðgöngumæðrun sem slíka. Verið er að reyna að koma til móts (Forseti hringir.) við ákveðinn hóp barna sem hafa þó reyndar orðið til undir slíkum kringumstæðum. En það er ekki verið að jánka staðgöngumæðrun á nokkurn hátt í þessu frumvarpi.