145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[13:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðu hans. Margt áhugavert sem kom þar fram. Almennt er búið að vera mjög áhugavert að hlusta á umræðuna um þetta frumvarp.

Gerð hefur verið athugasemd við það að málið hafi ekki komið fram fyrr, en við tókum við skýrslu nefndarinnar fyrir nokkru og höfum verið að vinna frumvarpið síðan þá í starfshópi þar sem helstu lykilaðilar koma að því. Ég er algjörlega sannfærð um að allir þeir sem sátu í þessari nefnd eða öðrum nefndum sem komu að vinnu almannatrygginga, hvort sem við erum að tala um Árnanefndina á síðasta kjörtímabili eða nefndina sem rædd var hér og skilaði af sér 2009, hafa virkilega lagt sig fram um að koma með tillögur. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður nefndi þá erum við með svo mikinn fjölda af einstaklingum sem búa við svo margvíslegar aðstæður. Þá koma alltaf upp þessi sjónarmið: Viljum við hafa einfalt kerfi eða viljum við reyna að koma til móts við sem flesta sem þýðir þá ákveðið flækjustig?

Ég get líka tekið undir það sem hv. þingmaður nefnir um mikilvægi þess að huga að samspili þessara lykilkerfa okkar, lífeyrissjóðakerfisins og almannatryggingakerfisins. Það er meginhugsunin með þessum breytingum. Það eru hins vegar ákvæði í frumvarpinu þar sem við segjum að gera þurfi breytingar á lögum um lífeyrissjóði samhliða til þess að tryggja að þau nái markmiðum sínum.

Það sem ég hef á þessu kjörtímabili lagt mjög mikla áherslu á er að það er svo margt annað sem spilar líka inn í fyrir utan almannatryggingarnar eða lög um félagslega aðstoð. Minn forgangur er húsnæðismálin. Það er það sem ég hef lagt áherslu á og haft mestar áhyggjur af vegna þess að tölurnar, félagsvísarnir sem fyrri ríkisstjórn, sem hv. þingmaður sat í, lagði drögin að, sýna okkur að það fólk sem hefur minnst á milli handanna á Íslandi er fólkið sem er á leigumarkaðnum, fólkið sem er með mikinn heilbrigðiskostnað. Það eru nákvæmlega þau kerfi (Forseti hringir.) sem við höfum sett í forgang á kjörtímabilinu, þ.e. að breyta leigumarkaðnum, auka (Forseti hringir.) húsnæðisstuðninginn og koma á alvöru greiðsluþátttökukerfi.