145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar sem voru ágæt og sérstaklega staðnæmist ég við eitt, að við erum sammála um að skoða þarf þessi mál heildstætt, það þarf að skoða almannatryggingakerfið og breytingar sem við gerum á því, tala nú ekki um aldursmarksbreytingar í samræmi við það sem gerist í lífeyrissjóðunum. Þar eru breytingar ekki komnar fram. Okkur er sagt í fjölmiðlum að verið sé að ræða það, véla um það, en við vitum ekki hvað það er nákvæmlega að öðru leyti en því að sagt er að verið sé að jafna kjörin. Þá spyr ég og hef oft spurt um það áður í þessum ræðustól: Í hvora áttina, upp eða niður?

Ég hef ráðið í það af yfirlýsingum talsmanna launafólks, ekki síst hjá Alþýðusambandi Íslands, að hugmyndin sé að stefna niður á við, að færa réttindi opinberra starfsmanna niður til jafns við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Ég vil fara hina áttina. Ég vil færa þau sem þar eru upp á við. Þetta hefur verið okkar baráttumarkmið í áratugi. Þar vísa ég í þau samtök sem ég er sprottinn upp úr, BSRB, og við höfum haft mikinn árangur af því starfi.