145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja umræðuna mikið en mér finnst ástæða til að taka hér aðeins til máls um frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar sem lýtur einkum að öldruðum. Það sem sérstaklega er verið að leggja til er annars vegar möguleikinn á sveigjanlegum starfslokum og hins vegar að einfalda bótakerfið, sem eru hvort tveggja jákvæð markmið. Það verður hins vegar að segjast í upphafi að við erum nú stödd í þinginu og starfsáætlun er útrunnin, búið er að boða til kosninga en ekki er enn búið að ákveða hversu langan tíma í viðbót Alþingi ætlar gefa sér til að fara yfir þau mál sem hér eru á dagskrá. Þetta mál er þess eðlis að þrátt fyrir að talsvert samráð hafi verið haft í aðdragandanum og að málið sé að einhverju leyti afurð mikillar nefndarvinnu í fortíðinni er óþægilegt að fjalla um það með jafn stuttan tíma fram undan og við væntum, þó að við vitum í raun ekkert um það frekar en annað hér í þinginu. Gott hefði verið að hafa tíma til að ræða þetta mál og kynna sér það, þrátt fyrir að það hafi haft talsvert langan aðdraganda.

Áður en ég fer í efnisatriðin vil ég segja að það liggur fyrir nú þegar komið hafa inn umsagnir í aðdragandanum frá ólíkum samtökum og hópum eldri borgara. Þær eru ekki allar á eina lund. Þó má segja að flestir taki undir stóru markmiðin og telji þau mjög jákvæð sem lúta að einföldun kerfisins annars vegar og sveigjanlegum starfslokum hins vegar. En hins vegar er gagnrýnt að ýmislegt sé ekki gert, að ekki sé tekið á tilteknum þáttum. Svo má ekki gleyma því að frumvarpið sprettur úr vinnu sem ætlað var að taka til talsvert fleiri þátta. Vil ég þá sérstaklega nefna málefni öryrkja sem eru ekki hér undir. Það hefði þess vegna verið gott að hafa tímann fyrir sér í þessum málum, að þau væru rædd um leið, því að þetta er auðvitað bara einn hluti vinnunnar.

Ég vitna hér til umsagna. Við sjáum til að mynda að Landssamband eldri borgara hefur sent okkar álit þótt málin séu ekki farin formlega til umsagnar. Félag eldri borgara í Reykjavík hefur einnig sent okkur þingmönnum álit og eins Grái herinn, sem er aðgerðahópur eldri borgara, þannig að við sjáum að það er ýmislegt sem æskilegt væri að fara vel yfir í tengslum við þetta frumvarp. En ég vona að tíminn verði vel nýttur til þess.

Eins og ég nefndi áðan er það jákvætt markmið sem hér er sett fram, að starfslok verði sveigjanlegri. Auðvitað sjáum við að hópar eldri borgara eru gerbreyttir að samsetningu frá því sem var kannski fyrir tveimur áratugum. Að sjálfsögðu spilar inn í sú staðreynd að fólk lifir almennt lengur og það eru fleiri möguleikar til þess að halda heilsu fram eftir aldri. Því er ekki óalgengt að fólk sem þarf að hætta störfum sjötugt er enn með fulla starfsorku og vill gjarnan vinna áfram.

Það er því mikilvægt að samhliða þessum breytingum, verði þær að lögum, sé hugað að því að vinnumarkaðurinn bregðist við þessum breytingum, að vinnumarkaðurinn hugi að því hvernig hann getur nýtt sér starfskrafta eldri borgara. Það eru margir sem vilja vinna lengur en til sjötugs og kannski í einhvers konar hlutastarfi, jafnvel þá einhver önnur störf en þeir hafa áður sinnt, en það eru ekki endilega mörg tækifæri og það er mjög mismunandi milli geira. Ég held að það geti falist mikil tækifæri í því t.d. að nýta fólk sem verið hefur í yfirmannsstöðu en getur komið að miklu gagni sem sérfræðingar eða í hvers konar öðrum störfum þó að það sé innan sama vinnustaðar. Mér finnst ég þegar finna fyrir ákveðinni hugarfarsbreytingu á vinnumarkaði, og ég held að þarna skipti máli að vinnumarkaðurinn taki þátt og sjái til þess að sveigjanleg starfslok verði raunverulegur möguleiki hjá þeim eldri borgurum sem vilja vinna lengur.

Það er auðvitað líka mikilvægt að huga að því að ekki allir eru með góða heilsu eða í þannig störfum að þeir geti unnið lengur. Þá vitna ég sérstaklega til fólks sem verið hefur í erfiðisvinnu og er komið á þann stað í sínu lífi að það getur hreinlega ekki sinnt þeirri erfiðisvinnu sem það hefur sinnt fram að þessu. Það er auðvitað talsverður munur á því að vera í vinnu sem ekki reynir á mann líkamlega og t.d. því að vinna við skúringar. Mér finnst því mikilvægt þegar við skoðum þessi mál að við höfum hugfast að aðstæður eldra fólks eru afar ólíkar eftir heilsu, geirum og öðru slíku.

Síðan vil ég nefna það sem lýtur að einföldun og samræmingu bótakerfanna. Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að þetta kerfi er vissulega allt of flókið. Ég tek undir það markmið að mikilvægt er að einfalda það. Það er mikilvægt og við höfum öll heyrt það, þingmenn sem erum út um hvippinn og hvappinn, að þetta veldur fólki algjörlega óþörfum áhyggjum og erfiðleikum að til að mynda bótaflokkarnir séu með mismunandi skerðingarhlutföllum. Það er því jákvætt skref að horft sé til þess að einfalda kerfið, því að það er satt að segja afskaplega óaðgengilegt á köflum fyrir venjulegt fólk. Sú breyting er mikilvæg en það þarf auðvitað að skoða hana.

Ég tek það fram að ég er ekki búin að lúslesa greinargerðina, en ég sé til að mynda hér aftast að gerð hefur verið tilraun til þess að greina ólík áhrif á kynin. Það er niðurstaða þeirrar greiningar, og ég vænti þess að nefndin fái tíma til að fara vel yfir hana, að þessar breytingar muni koma almennt betur út fyrir konur en karla, og þar af leiðandi jafna stöðu kynjanna. Mér finnst það mjög jákvætt að sú greining sé lögð fram. Það er í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar og síðustu ríkisstjórnar að við rekum hér kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð. Ég hef einmitt kallað eftir því í ýmsum öðrum frumvörpum frá ríkisstjórninni. Ég nefni bara nýlegt frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna, eða um námsstyrki og námsaðstoð, sem mig minnir að það heiti. Þar liggur slík greining ekki fyrir. Mér finnst mjög jákvætt að hún liggi fyrir. Ég vil bara segja að það mundi ég vilja sjá í öllum frumvörpum, stjórnarfrumvörpum, sem miða að kerfisbreytingum á borð við þær tvær sem ég hef hér nefnt.

Það sem veldur mér hins vegar áhyggjum eru töflurnar sem hér eru. Þar er verið að útskýra hvernig skerðingarnar eru og hvernig breytingarnar verða með tilliti til lífeyrissjóðstekna, með tilliti til fjármagnstekna og með tilliti til atvinnutekna. Gallinn er sá að kjör þeirra sem eru í neðsta flokknum og fá 212.776 þús. kr. í þessa grunnframfærslu, breytast ekkert, þ.e. þetta er talan fyrir þá sem ekki búa einir. Ef maður býr einn er þessi tala 246.902 þús. kr.

Ég hlýt að rifja það upp sem einnig er minnt á í umsögn Félags eldri borgara, að eldri borgarar og öryrkjar settu fram þá skýru kröfu í tengslum við það þegar kjarasamningar voru gerðir á almennum vinnumarkaði og ákveðið var að semja um að lægstu laun mundu hækka í áföngum upp í 300 þús. kr., að lágmarkstekjur þeirra yrðu líka 300 þús. kr. Það er ekki óbilgjörn krafa. Miðað við þau framfærsluviðmið sem finna má á heimasíðu velferðarráðuneytis er ekki nokkur maður ofhaldinn af 300 þús. kr. í mánaðartekjur. Þær duga vart til til þess að uppfylla framfærsluviðmiðin sem þar eru.

Ég vil nota tækifærið hér að lokum og segja að sú krafa er ekki gleymd. Þetta þarf að fara yfir í velferðarnefndinni. Það er kannski ekki fjölmennur hópur sem tilheyrir í lægsta tekjuhópnum, en þarna eru samt einhverjir. (Gripið fram í.) Nú heyri ég ekki hvað hæstv. ráðherra segir hér á bekknum, væntanlega hefur hún þessar tölur á hreinu og getur farið yfir þær við tækifæri. En það sem ég vil segja er: Þarna þarf að huga að því hversu stór hópur þetta er og hvernig hægt er mæta kröfunni sem við þekkjum öll, um 300 þús. kr. lágmarkstekjur. Mér finnst mikilvægt að við horfum ekki bara á kerfisbreytinguna sem slíka, sem þó er mikilvæg, við verðum líka að horfa á þá sem verst standa, eins og í öðrum geirum samfélagsins.

Af því að hér voru hv. þingmenn að ræða áðan um hvort þeir væru jafnaðarmenn eða ekki þá vil ég segja að ég tel mig a.m.k. í hópi jafnaðarmanna. Mér finnst mikilvægt að við skoðum sérstaklega þessa hópa í tengslum við frumvarpið í þeirri vinnu sem fram undan er, því að það er ekki gott að ljúka þessari vinnu ef við skiljum einhvern hóp eftir, hversu fámennur eða fjölmennur hann kann að vera. Það finnst mér ekki ganga, herra forseti.

Þetta er nú það sem ég vil segja um málið svona í blábyrjun, en ég vænti þess að við eigum eftir að eiga miklar umræður um það hér. Þetta er stórt mál og það kallar á ígrundaða skoðun sem ég held að við séum öll reiðubúin að fara í. Það er eðlilegt að skoða alla þætti þess vel. Ég hef trú á því að hér liggi fyrir ágætisgögn þannig að við náum að gera það, en svo verðum við að sjá hvert tíminn leiðir okkur og þinghaldið.