145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

húsnæðismál.

849. mál
[15:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega voru lánaheimildir takmarkaðar á síðasta kjörtímabili, en við höfum séð áframhald á því. Íbúðalánasjóður hefur ekki fengið heimild til að lána óverðtryggð lán. Vextir hafa ekki verið lækkaðir þrátt fyrir að rætt hafi verið, a.m.k. af þingmönnum Vinstri grænna, hvort ekki væri eðlilegt að heimila Íbúðalánasjóði að lána á lægri vöxtum. Og þegar lífeyrissjóðir bjóða lán á betri vöxtum velja lántakar eðlilega slík lán.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir, við erum sammála um að það þarf að endurskoða hið samfélagslega hlutverk bankakerfisins. Mér er umhugað um það. Við erum ekki búin að því. Og þó að bankarnir séu að einhverju leyti í eigu ríkisins efast ég um að almenningur upplifi að hann hafi raunverulega áhrif á hvernig bönkunum er stýrt. Það er auðvitað eðlismunur á því sem við köllum samfélagsbanka og því sem við köllum hefðbundinn banka í eigu ríkisins sem er fyrst og fremst rekinn út frá arðsemissjónarmiðum og hefur ekki önnur sjónarmið að leiðarljósi sem geta verið á sviði umhverfismála, byggðamála eða hvað það er, einhverra samfélagslegra markmiða.

Þess vegna endurtek ég spurningu mína. Hæstv. ráðherra bendir á stöðu sjóðsins, hún er okkur öllum kunn og hún hefur verið rædd hér ítrekað. En liggur eitthvað á því að ljúka þessari lagasetningu á þeim stutta tíma sem er eftir af þessu þingi þegar við vitum að ekki er búið að skoða fjármálakerfið út frá þeim sjónarmiðum sem höfum rætt? Við vitum að það er í raun talsverð óvissa fram undan út frá því t.d. hvaða ríkisstjórn tekur hér við völdum að loknum kosningum, hvort sú endurskoðun mun yfir höfuð fara fram eða hvort þeir bankar verða bara seldir í hendur hæstbjóðenda og við erum komin með allan lánamarkaðinn, fyrir utan þessar mjög svo afmörkuðu heimildir, í hendur banka á markaði sem eru þá fyrst og fremst að hugsa um arðsemissjónarmið.

Þannig að ég spyr aftur: Liggur eitthvað á að ljúka þessu máli? Mun það einhverju breyta þó að það sé (Forseti hringir.) tekið aftur til skoðunar hér í nóvember eða desember?