145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

húsnæðismál.

849. mál
[15:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem snýr að þessu frumvarpi tel ég rétt að fyrir liggi hver sýnin er varðandi þau verkefni sem mér hafa verið falin sem félags- og húsnæðismálaráðherra og eins að sjóðurinn er kominn í þannig stöðu, oft með erfiðum ákvörðunum, ákvörðunum sem tekið hafa á á fyrir alla hlutaðeigandi — að leggja hér til hvernig sjóðnum verði komið fyrir til framtíðar. Þar höfum við horft á hin Norðurlöndin. Þar höfum við horft á hvað hefur verið að gerast á húsnæðislánamarkaðnum. Þar erum við að horfa á hlutverk sveitarfélaganna, mikilvægi áætlanagerðar, sem er hlutverk sem skiptir gífurlega miklu máli að verði skerpt á, að samræma við lög um almennar íbúðir og bæta varðandi ákvæði um úrræði vegna greiðsluvanda lánþega og afskriftir. Það eru hins vegar líka frumvörp í þinginu sem er ætlunin að klára, eins og t.d. frumvarp um fasteignalán, sem ég vil eindregið hvetja þingmenn til að kynna sér mjög vel og vanda til við þá lagasetningu vegna þess að þar erum við að setja almennar leikreglur um lánveitingar. Meginþorri þess fjármálakerfis sem við erum með, hvort sem við erum að tala um bankana, sparisjóðina, Íbúðalánasjóð eða lífeyrissjóðina, er komið í samfélagslega eigu. Við erum að setja leikreglurnar. (KJak: En ekki samfélagslegan rekstur.)Það er náttúrlega líka okkar hlutverk samhliða hinu að gera það. Við erum að tryggja að þeir sem telja sig ekki geta fengið það sem þeir leita að hjá öðrum á markaði muni geta leitað til Íbúðalánasjóðs.

Varðandi síðan þær ákvarðanir sem teknar hafa verið og bent var á sem möguleika, eins og verðtrygginguna og annað, þá létum við kanna það (Forseti hringir.) varðandi óverðtryggð lán. En niðurstaðan var sú, (Forseti hringir.) og ég hef reynt að fylgja henni, að þar með værum við að auka enn á áhættu ríkissjóðs og hugsanlega leiða til þess að aukið fjármagn færi úr ríkissjóði (Forseti hringir.) í það að styrkja eigið fé sjóðsins. Ég vil frekar sjá þá fjármuni fara í (Forseti hringir.) uppbyggingu á nýju félagslegu leiguíbúðakerfi og auka stuðning, svo sem (Forseti hringir.) húsnæðisbætur, og almennt í aðra þætti velferðarkerfisins en það að styrkja kennitölur hjá Íbúðalánasjóði.