145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

umhverfisbreytingar á norðurslóðum.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú fyrir helgi var kynnt hagsmunamat Íslands á norðurslóðum og var það í tengslum við 20 ára afmæli Norðurskautsráðsins, þar sem ég sat raunar ágætismálþing með hæstv. utanríkisráðherra um áskoranirnar fram undan í málefnum norðurskautsins. Hagsmunamatið byggir á þingsályktun sem var samþykkt hér árið 2011 þar sem Alþingi markaði ákveðna stefnu í málefnum norðurslóða. Það hefur auðvitað mjög margt breyst í þessum málaflokki á undanförnum áratug. Norðurslóðir hafa fengið aukið pólitískt mikilvægi, ekki síst í tengslum við þær breytingar sem eru að verða á umhverfinu, loftslagsbreytingar, þar sem ýmsir sjá tækifæri í því að jöklar séu að hopa og hægt sé að nýta frekari auðlindir en aðrir sjá þá hættu sem stafar af þróun mála á norðurslóðum, ekki bara fyrir svæðið hér heldur heiminn allan.

Ég held raunar, og mig langar að ræða það við hæstv. ráðherra, að þetta hagsmunamat ætti fullt erindi í umræður á Alþingi. Þetta varðar auðvitað Alþingi, hvernig við sjáum hagsmuni okkar metna hér á norðurslóðum. Það sem mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um er að sjá má þegar maður les þetta mat að þarna er, getum við sagt, bæði reynt að eiga kökuna og borða hana. Í matinu segir að mikilvægt sé að finna jafnvægi milli tækifæra og áskorana, nýta auðlindirnar til hagsbóta fyrir íbúa norðursins án þess að ógna umhverfisgæðum. En um leið er bent á að umhverfisbreytingar eru mjög hraðar á norðurslóðum. Hlýnun þar er tvöfalt hraðari en hlýnun sunnar á jarðarkringlunni. Eigi að síður er mjög miklu púðri varið í að ræða nýtingu auðlinda á norðurslóðum, ekki síst nýtingu kolefnis sem æ fleiri setja spurningarmerki við í æ fleiri stjórnmálaflokkum á Íslandi sem og annars staðar.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að ganga mun afdráttarlausar fram gegn nýtingu auðlinda á norðurslóðum þar sem ýmsir (Forseti hringir.) eru komnir í kapphlaup um að nýta þessi verðmæti vegna þeirrar hættu fyrir umhverfið og heiminn allan þar með sem stafar af þeirri sömu nýtingu.