145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

umhverfisbreytingar á norðurslóðum.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og tel raunar að það væri gott ef við fengjum rýmri tíma til að ræða þessi mál því að þetta er auðvitað stórmál fyrir Ísland. Við sjáum áhrif loftslagsbreytinga ekki aðeins á alþjóðavísu þegar kemur að hækkun sjávarborðs og öðru heldur sjáum við það líka í hafinu í kringum okkur þar sem súrnun sjávar er orðin verulegt áhyggjuefni fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð. Þess vegna skiptir mjög miklu máli hvernig spilast úr því ef svo fer sem horfir að við sjáum fram á áframhaldandi bráðnun íss á norðurskautinu, hugsanlega aukna hættu, og ekkert bara hugsanlega heldur aukna hættu á staðbundinni mengun af völdum olíuvinnslu eða annars slíks. Það gæti þýtt verulegar breytingar fyrir Ísland ef við horfum á það bara út frá okkar þrönga sjónarhorni.

Ég held að þegar kemur t.d. að olíuvinnslu hér heima, og um það hefur mín hreyfing ályktað, eigum við að endurskoða þá stefnu og hverfa frá áformum um olíuvinnslu. Það hafa fleiri flokkar gert á þingi. Þetta skiptir máli. Þarna horfum við upp á gríðarleg auðæfi (Forseti hringir.) sem hægt er að vinna en til lengri tíma mun sú vinnsla jafnvel skila meiri hörmungum en gæðum fyrir mannkynið.