145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

hlutdeild sveitarfélaga í svokölluðum bankaskatti.

[15:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann deili ekki áhyggjum mínum um þá fjármuni sem koma af bankaskatti og áttu að renna til sveitarfélaganna til að mæta breytingum sem urðu á séreignarsparnaði þegar skuldaleiðréttingin svokallaða fór í gegn. Þá töpuðu sveitarfélögin tekjum. Það er áætlað að árið 2015 hafi útsvarstekjur Reykjavíkur lækkað um 1,1% en t.d. í Garðabæ, Kópavogi og Mosfellsbæ lækkuðu þær um 1,4%. Þetta eru náttúrlega umtalsverðar tekjur. Áætlað er að þetta verði 4–4,5 milljarðar á því tímabili sem þessar reglur eiga að gilda.

Nú er búið að vera hér í salti í meira en ár frumvarp um að þessir peningar fari í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hann deili ekki áhyggjum mínum um að þetta skapi sveitarfélögunum mikil vandræði og við sjáum það og heyrum um það fréttir á hverjum degi. Í framhaldi af því segi ég að ef þetta á að renna inn í jöfnunarsjóðinn og fara eftir almennum reglum þar er alveg ljóst að peningarnir munu ekki renna til sveitarfélaganna í sama hlutfalli og tekjutap þeirra. Þetta veldur mér miklum áhyggjum og mér finnst þetta umhugsunarvert. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann deili þeim áhyggjum ekki með mér og hvort hann fari ekki að þrýsta á samstarfsfólk sitt í ríkisstjórninni og þingmenn stjórnarmeirihlutans um að afgreiða þetta mál.