145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

þjóðaröryggisráð og tölvuöryggi þingmanna.

[15:18]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um mál sem hlýtur að teljast þjóðaröryggismál.

Það var margt stórra tíðinda á pólitískum vettvangi nú um helgina, en ein af þeim fréttum sem flugu var að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins heldur því fram að brotist hafi verið inn í tölvuna hjá honum. Orðrétt sagði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á flokksþingi Framsóknarflokksins núna um helgina: „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér.“ Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvaða viðbúnaður fer í gang af hálfu hins opinbera þegar upplýst er um slík tíðindi. Nú heyra þjóðaröryggismálin undir hæstv. utanríkisráðherra. Ég veit að í farvatninu er að stofna sérstakt þjóðaröryggisráð. Það hlýtur einhver slík rannsókn að fara í gang þegar um slíkar upplýsingar er að ræða.

Hvar gerðist þetta innbrot í tölvu hæstv. forsætisráðherra? Hver gerði það? Hvenær var það gert? Hvaða rannsókn er í gangi til þess að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki? Er búið að komast að því hvaða upplýsingar voru í tölvu hæstv. forsætisráðherra þegar brotist var inn í tölvuna? Er ekki um þjóðaröryggismál að ræða? Er ekki full ástæða til þess að taka slíkar yfirlýsingar alvarlega? Er ekki full ástæða fyrir hæstv. utanríkisráðherra að kalla hið svokallaða þjóðaröryggisráð saman til þess að fara yfir þetta?

Annað eins hefur nú valdið tíðindum, t.d. í bandarískri pólitík þar sem málefni fyrrverandi utanríkisráðherra og notkun hennar á tölvupósti og eigin tölvupóstfangi hafa verið til umfjöllunar í marga mánuði og þykir einmitt vera þjóðaröryggismál. Menn hljóta að kalla eftir svörum þegar slíkar yfirlýsingar eru gefnar.

Ég vil líka bæta því við: Kannast hæstv. utanríkisráðherra við það að fylgst (Forseti hringir.) sé með ferðum ráðherrans í útlöndum? Að henni sé veitt eftirför eða reynt sé að brjótast inn í tölvu hennar?