145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

uppbygging á Bakka.

[15:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin eins langt og þau ná og að hún deili áhyggjum mínum af þessu. Það er liðinn töluvert langur tími frá því úrskurðarnefndin felldi sinn bráðabirgðaúrskurð. Málið tifar og er mjög alvarlegt, ekki bara vegna framkvæmdarinnar, vegna sveitarfélagsins, sveitarfélaganna, heldur líka vegna orðstírs Íslands út á við. Hér hefur ríkisstjórn gert samning eftir lögum sem sett voru á síðasta kjörtímabili og þessi ríkisstjórn hefur framfylgt og staðið sig líka hvað það varðar. Má ég minna á það, virðulegi forseti, að umhverfismat hefur farið fram á framkvæmdinni. Í aðalskipulagi þeirra þriggja sveitarfélaga sem um ræðir er gert ráð fyrir þessu öllu saman. Eins og ég sagði, þetta er alvarlegt hvað varðar orðstír og við þolum ekki langa bið.

Þess vegna spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Hvenær kemur ríkisstjórnin, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta eru sennilega tvö ráðuneyti, með tillögu að lausn og hver verður hún?